Samantha Briggs, hraustasta kona heims 2013, mun þjálfa Evrópuliðið en hún treystir á tvær íslenskar konur og einn íslenskan karl í keppninni í ár. Briggs er þjálfari liðsins þriðja árið í röð.
Annie Mist Þórisdóttir og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir eru í liðinu ásamt Björgvini Karli Guðmundssyni og Jason Smith. Þetta kemur fram á heimasíðu Crossfit heimsleikana.
Annie Mist, Ragnheiður Sara og Björgvin Karl þekkja það öll að keppa fyrir hönd Evrópu á á CrossFit Invitational en Ragnheiður Sara og Björgvin Karl hjálpuðu Evrópu að vinna mótið í fyrra.
Annie Mist Þórisdóttir náði þriðja sæti á heimsleikunum í ágúst og er nú valinn í Evrópuliðið í þriðja sinn. Ragnheiðar Sara er líka í þriðja sinn í liðinu en þetta er fjórða árið í röð sem Björgvin Karl keppir á CrossFit Invitational.
CrossFit Invitational keppnin í ár fer fram 5. nóvember næstkomandi í Melbourne í Ástralíu.