Efnafræðingur fann leifar af VX-taugaeitri á konunum tveimur sem sakaðar eru um að hafa myrt Kim Jong Nam, hálfbróður Kim Jong-Un, einræðisherra Norður-Kóreu. Konurnar eru sagðar hafa gengið að honum á alþjóðaflugvellinum í Kuala Lumpur í Malasíu í febrúar og smurt taugaeitrinu framan í hann.
VX-taugaeitur er skilgreint sem gereyðingarvopn.
Konurnar tvær, Siti Aisyah frá Indónesíu og Doan Thi Huong frá Víetnam, neita sök. Þær hafa ekki borið vitni enn en hafa áður sagt að þær hafi verið plataðar. Þær hafi talið að þær væru að hrekkja mann fyrir raunveruleikaþátt.
Sjá einnig: Uppreisnargjarni glaumgosinn Kim Jong-nam
Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar fann efnafræðingurinn Raja Subramaniam leifar af VX á fötum beggja kvennanna og undir fingurnöglum annarrar þeirra. Raja lýsti VX sem hættulegasta taugaeitri sem hefði verið búið til.
Konurnar eiga yfir höfði sér dauðarefsingu, verði þær fundnar sekar.
Erlent