Sport

Sunna Tsunami: Fréttirnar voru rothögg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sunna ætlar að snúa aftur í búrið í byrjun árs 2018.
Sunna ætlar að snúa aftur í búrið í byrjun árs 2018. vísir/allan suárez
Sunna Rannveig „Tsunami“ Davíðsdóttir er frá keppni vegna meiðsla á hendi. Í langri færslu á Facebook fer hún yfir meiðslin og endurhæfinguna.

Sunna segist hafa meiðst í bardaganum gegn Mallory Martin í apríl. Hún hélt að meiðslin væru ekki alvarleg og harkaði af sér.

Í bardaganum gegn Kelly D'Angelo í júlí meiddist Sunna aftur en kláraði bardagann. Að honum loknum fann hún fyrir miklum sársauka.

Erfitt reyndist að greina nákvæmlega hvað væri að hrjá Sunnu sem fór á endanum til handasérfræðings. Fréttirnar sem hann færði henni voru ekki góðar og Sunna líkir þeim við rothögg, enda ætlaði hún að taka a.m.k. einn bardaga til viðbótar á árinu 2017.

Sunna segir að núna líði henni eins og meiðslin hefðu komið upp því þau áttu að koma upp. Hún hafi þurft á hvíldinni að halda.

Sunna segist hafa notið lífsins í endurhæfingunni og henni líði mun betur í hendinni. Hún heldur sér í góðu formi og reynir að bæta þá hluti sem hún getur bætt án þess að nota hægri hendina.

Að lokum segist Sunna ekki ætla að berjast meira á árinu 2017 en hún stefni á að snúa aftur í búrið í byrjun næsta árs.

Færsluna í heild sinni má lesa hér að neðan.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×