Erlent

Heimamaðurinn Kimmel minntist fórnarlambanna með tárin í augunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jimmy Kimmel ber taugar til Las Vegas.
Jimmy Kimmel ber taugar til Las Vegas. Skjáskot
Spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel minntist fórnarlamba skotárásarinnar í Las Vegas í tilfinngaþrunginni einræðu í þætti sínum í gærkvöldi. 59 manns létu lífið og rúmlega 500 særðust í árásinni, sem er sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna.

Kimmel, sem er fæddur og uppalinn í borginni, barðist við tárin allt frá fyrstu setningu - eins og heyra má hér að neðan.

Sjá einnig: Hömlulaust ofbeldi í borg syndanna

„Í morgun stöndum við uppi með börn án foreldra, feður án sona, mæður án dætra. Við misstum tvo lögregluþjóna. Við misstum hjúkrunarfræðing frá Tenneesse, kennara frá Manhattan Beach. Þetta er svona atburður sem fær þig til að vilja kasta upp og gefast upp. Það er varla hægt að vinna úr þessu - allar þessar fjölskyldur í sárum sem framvegis þurfa að lifa í þjáningu vegna gjörða eins manns með ofbeldisfullar og illar raddir í höfðinu sem gat sankað að sér öflugum byssum og notað þær til að skjóta fólk,“ er meðal þess sem Kimmel sagði í ræðu sinni.

Hvatti hann forsetann Donald Trump sem og báðar deildir þingsins til að grípa til aðgerða gegn skotárásum sem hafa dregið rúmlega 11 þúsund manns til dauða í Bandaríkjunum það sem af er ári.

 


Tengdar fréttir

Hömlulaust ofbeldi í borg syndanna

Hið minnsta 58 voru myrtir og 515 særðir þegar skotárás var gerð á hóteli í Las Vegas í gær. Árásin er sú mannskæðasta í áratugi í Bandaríkjunum. Lögregla hefur ekki viljað skilgreina árásina sem hryðjuverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×