Erlent

Fimm Íslendingar á hóteli árásarmannsins í Las Vegas

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi í Las Vegas í morgun.
Frá vettvangi í Las Vegas í morgun. vísir/getty
Fimm Íslendingar eru nú læstir inni á Mandalay-hótelinu í Las Vegas en lögreglan telur að maður sem hóf skotárás á tónlistarhátíð í borginni í morgun hafi skotið frá 32. hæð hótelsins. Íslendingarnir eru annars vegar læstir inni nokkrum hæðum neðar eða á 28. hæð og hins vegar á veitingastað nánast á efstu hæð hótelsins.

Íslendingarnir eru allir starfsmenn fyrirtækisins NetApp og eru þeir allir heilir á húfi. Starfsmennirnir eru á ráðstefnu í Las Vegas.

Vísir náði tali af Jóni Þorgrími Stefánssyni, forstjóra fyrirtækisins, sem gat þó lítið rætt í símann vegna ástandsins á hótelinu. Hann sagði að allir starfsmenn NetApp væru heilir á húfi og að sérsveitin færi nú um hótelið vegna árásarinnar.

Staðfest er að rúmlega að 20 manns hafi látist í árásinni og talið er að meira en 100 hafi særst. Árásarmaðurinn er sagður hafa verið heimamaður en hann féll í átökum við lögregluna sem gefur ekki upp nafn hans að svo stöddu. Lögreglan í Las Vegas leitar konu sem var í slagtogi við byssumanninn.

Talið er að 30 þúsund manns hafi verið komnir saman á tónlistarhátíð skammt frá Mandalay-hótelinu. Kántrístjarnan Jason Aldean, stærsta nafn hátíðarinnar í ár, var á sviðinu þegar skotárásin hófst. 

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Eiríkur Hrafnsson, starsmaður NetApp, tók af fólki að flýja vettvang skömmu eftir að árásin hófst.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×