Erlent

Fjölmargir sagðir látnir eftir skotárás í Las Vegas

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Í myndböndum á samfélagsmiðlum má sjá fólk flýja af vettvangi.
Í myndböndum á samfélagsmiðlum má sjá fólk flýja af vettvangi. Vísir/Getty
Byssumaður hóf skothríð á tónlistarhátíð í Las Vegas nú í morgun. Samkvæmt talsmanni spítala í borginni eru hið minnsta tveir látnir og 24 særðir, þar af 14 alvarlega. Lögreglan segir að árásarmaðurinn hafi fallið og að á þessari stundu sé ekki talið að fleiri hafi verið að verki.

Þungvopnaðir lögreglu- og sérsveitarmenn eru enn að störfum á vettvangi, nærri Mandalay Bay-hótelinu á aðalbreiðgötu Las Vegas. Borgaryfirvöld biðla til íbúa og gesta að halda sig frá svæðinu.

Fjölmiðlamenn ytra bíða nú eftir blaðamannafundi lögreglunnar sem gert er ráð fyrir að hefjist á hverri stundu.

Myndbönd á samfélagsmiðlum sýna hundruð tónleikagesta flýja af vettvangi en talið er að rúmlega 30 þúsund manns hafi verið á tónleikasvæðinu í nótt. Í einhverjum myndbandanna hljómar eins og verið sé að skjóta af hríðskotabyssu er segir í frétt BBC.

Vitni segja að í fyrstu hafi það hljómað eins og um flugelda væri að ræða. Skömmu síðar hafi fólk áttað sig á alvöru málsins og tók þá við mikil ringulreið.

Heimildarmenn Fox telja að skotin hafi komið að ofan og að jafnvel hafi verið skotið á tónleikagesti af þrítugustu hæð hótels í nágrenninu. Þá telja þeir einnig að einn lögregluþjónn hafi særst.

Fréttin verður uppfærð þegar nánari fregnir berast. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×