Sjálfumgleði Kristín Þorsteinsdóttir skrifar 14. október 2017 06:00 Íslandi vegnar nokkuð vel utan Evrópusambandsins. Efnahagur er blómlegur – árferðið betra en almennt í ESB-löndum. Svo er forsjóninni og erlendum lánardrottnum fyrir að þakka. Við fengum makríltorfur í miðju svartnættinu eftir hrun. Fyrir áttum við ægifagurt land, sem útlendir ferðamenn komust á snoðir um í andstreyminu miðju. Lánardrottnarnir féllust svo nauðugir viljugir á uppgjör sem gerði okkur kleift að hreinsa upp skuldir, langt umfram það sem flesta óraði fyrir. Ráðamenn eru flóttalegir til augnanna þegar þeir eigna sér hagsældina. Þeir vita sem er, að sumir lánardrottnarnir telja sig illa snuðaða – að peningarnir hafi verið teknir af þeim ófrjálsri hendi. Hér er ekki lagður dómur á það. En af þeirri ástæðu og góðum ytri skilyrðum – sem stjórnmálin ráða engu um – er Ísland á góðum stað í efnahagslegum samanburði. Orðið sjálfumgleði kemur upp í hugann þegar ráðamenn guma af því og þakka sjálfum sér að hvergi sé betra að alast upp en á Íslandi. Hér sé land tækifæranna og góð vinna fyrir alla meðan ungt fólk í evruríkjunum leggi á sig strangt nám og fái ekkert verðugt að gera. Láta svo í veðri vaka að krónan sé galdurinn. Samtímis flýja tæknifyrirtækin með sitt þrautþjálfaða starfslið, einmitt vegna krónunnar. Atvinnuleysistölur menntafólks víða í Evrópu eru kolbikasvartar, einkum við Miðjarðarhafið. En tölur þaðan ber að skoða í ljósi sögunnar. Á sólarströndum Spánar, Portúgals og Grikklands var atvinnulíf frumstætt í árdaga ESB. Sjálfsþurftarbændur og fiskimenn á bátskeljum einkenndu mannlífið líkt og í Afríku sunnan Sahara. Flest fólk var bláfátækt. Háskólar voru fyrir fáa útvalda og skólagráða tryggði þeim einum bjarta framtíð. Hlutfall háskólafólks hefur margfaldast og róðurinn á vinnumarkaði þyngst. Tækifærum fjölgar þó hratt en menntafólki enn hraðar. Engum dettur í hug að lausnin felist í afturhvarfi til sjálfsnægtanna. Við fórum illa að ráði okkar síðast þegar sótt var um inngöngu í ESB. Vanrækt var að tryggja pólitískt bakland. Umsóknin var í lausu lofti allan tímann. Erfiðustu álitamálin voru ekki formlega reifuð við samningaborðið. Í raun reyndi aldrei á umsóknina heldur vorum við dregin á asnaeyrunum í ferð án fyrirheits. Fyrir vikið veigra stjórnmálamenn sér við að gera ESB að kosningamáli. Á meðan bólgnar krónan og dregst saman á víxl eins og físibelgur. Fjármagnskostnaður er hærri en í nokkru landi sem við erum samskipa. Launamaðurinn fórnar drjúgum hluta tekna sinna í vexti og verðtryggingu. Fyrirtækin borga bönkum risasneið af framlegð sinni. Þau eru berskjölduð gagnvart útlendum keppinautum, sem hafa aðgang að þroskuðum lánamörkuðum. Nægir að nefna Costco. Svarið hlýtur að vera myntbandalag. Evran er nærtækust. Þessi sjónarmið eru munaðarlaus á jaðri kosningaþjarksins. Öflin sem hafa hag af óbreyttri stöðu ráða ferðinni. Hin eru annaðhvort brennd af gamla klúðrinu eða ná ekki eyrum kjósenda. Einstök ESB-ríki glíma við mikinn vanda. Væringar í Katalóníu eru grafalvarlegar. Brexit hvílir eins og mara á Bretum, sem í æ ríkari mæli átta sig á að viðskilnaðurinn er glapræði – og öðrum þjóðum víti til varnaðar. En þrátt fyrir allt er ástandið í Evrópu með besta móti og vitnisburður um frekar farsælt ríkjasamstarf. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kristín Þorsteinsdóttir Mest lesið 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun
Íslandi vegnar nokkuð vel utan Evrópusambandsins. Efnahagur er blómlegur – árferðið betra en almennt í ESB-löndum. Svo er forsjóninni og erlendum lánardrottnum fyrir að þakka. Við fengum makríltorfur í miðju svartnættinu eftir hrun. Fyrir áttum við ægifagurt land, sem útlendir ferðamenn komust á snoðir um í andstreyminu miðju. Lánardrottnarnir féllust svo nauðugir viljugir á uppgjör sem gerði okkur kleift að hreinsa upp skuldir, langt umfram það sem flesta óraði fyrir. Ráðamenn eru flóttalegir til augnanna þegar þeir eigna sér hagsældina. Þeir vita sem er, að sumir lánardrottnarnir telja sig illa snuðaða – að peningarnir hafi verið teknir af þeim ófrjálsri hendi. Hér er ekki lagður dómur á það. En af þeirri ástæðu og góðum ytri skilyrðum – sem stjórnmálin ráða engu um – er Ísland á góðum stað í efnahagslegum samanburði. Orðið sjálfumgleði kemur upp í hugann þegar ráðamenn guma af því og þakka sjálfum sér að hvergi sé betra að alast upp en á Íslandi. Hér sé land tækifæranna og góð vinna fyrir alla meðan ungt fólk í evruríkjunum leggi á sig strangt nám og fái ekkert verðugt að gera. Láta svo í veðri vaka að krónan sé galdurinn. Samtímis flýja tæknifyrirtækin með sitt þrautþjálfaða starfslið, einmitt vegna krónunnar. Atvinnuleysistölur menntafólks víða í Evrópu eru kolbikasvartar, einkum við Miðjarðarhafið. En tölur þaðan ber að skoða í ljósi sögunnar. Á sólarströndum Spánar, Portúgals og Grikklands var atvinnulíf frumstætt í árdaga ESB. Sjálfsþurftarbændur og fiskimenn á bátskeljum einkenndu mannlífið líkt og í Afríku sunnan Sahara. Flest fólk var bláfátækt. Háskólar voru fyrir fáa útvalda og skólagráða tryggði þeim einum bjarta framtíð. Hlutfall háskólafólks hefur margfaldast og róðurinn á vinnumarkaði þyngst. Tækifærum fjölgar þó hratt en menntafólki enn hraðar. Engum dettur í hug að lausnin felist í afturhvarfi til sjálfsnægtanna. Við fórum illa að ráði okkar síðast þegar sótt var um inngöngu í ESB. Vanrækt var að tryggja pólitískt bakland. Umsóknin var í lausu lofti allan tímann. Erfiðustu álitamálin voru ekki formlega reifuð við samningaborðið. Í raun reyndi aldrei á umsóknina heldur vorum við dregin á asnaeyrunum í ferð án fyrirheits. Fyrir vikið veigra stjórnmálamenn sér við að gera ESB að kosningamáli. Á meðan bólgnar krónan og dregst saman á víxl eins og físibelgur. Fjármagnskostnaður er hærri en í nokkru landi sem við erum samskipa. Launamaðurinn fórnar drjúgum hluta tekna sinna í vexti og verðtryggingu. Fyrirtækin borga bönkum risasneið af framlegð sinni. Þau eru berskjölduð gagnvart útlendum keppinautum, sem hafa aðgang að þroskuðum lánamörkuðum. Nægir að nefna Costco. Svarið hlýtur að vera myntbandalag. Evran er nærtækust. Þessi sjónarmið eru munaðarlaus á jaðri kosningaþjarksins. Öflin sem hafa hag af óbreyttri stöðu ráða ferðinni. Hin eru annaðhvort brennd af gamla klúðrinu eða ná ekki eyrum kjósenda. Einstök ESB-ríki glíma við mikinn vanda. Væringar í Katalóníu eru grafalvarlegar. Brexit hvílir eins og mara á Bretum, sem í æ ríkari mæli átta sig á að viðskilnaðurinn er glapræði – og öðrum þjóðum víti til varnaðar. En þrátt fyrir allt er ástandið í Evrópu með besta móti og vitnisburður um frekar farsælt ríkjasamstarf.