Darren Till kom verulega á óvart fyrr í kvöld þegar hann sigraði Donald Cerrone í Póllandi í kvöld. Till hefur þar með tekið hástökk í átt að titilbaráttunni.
Donald Cerrone var fyrir bardagann í 6. sæti á styrkleikalista UFC í veltivigtinni og almennt talinn með þeim betri í þyngdarflokknum. Darren Till var að sama skapi ekki einu sinni á topp 15 á styrkleikalistanum fyrir bardagann og var talið að hann ætti erfitt verk fyrir höndum í kvöld.
Raunin reyndist vera önnur enda átti Darren Till ekki í miklum erfiðleikum með Donald ‘Cowboy’ Cerrone í aðalbardaga kvöldsins. Kúrekinn er þekktur fyrir að vera lengi í gang og það nýtti Till sér með því að byrja strax á að pressa.
Till var fljótur að finna glufur á vörn Cerrone og kom nokkrum höggum inn. Till kýldi Cerrone niður og kláraði hann svo með höggum í gólfinu þegar tæp mínúta var eftir af fyrstu lotunni. Stórkostleg frammistaða hjá Till sem var tiltölulega óþekktur fyrir bardagann.
Donald Cerrone hefur nú tapað þremur bardögum í röð og þar af tvisvar eftir rothögg. Hinn 34 ára Cerrone er búinn að vera lengi að og spurning hvort dagar hans á toppnum séu taldir.
UFC bardagakvöldið í Póllandi gekk nokkuð vel hjá heimamönnum en hin pólska Karolina Kowalkiewicz komst aftur á sigurbraut með sigri á Jodie Esquibel eftir tvö töp í röð. Öll önnur úrslit kvöldsins má nálgast á vef MMA Frétta hér.

