Sport

Kavanagh gefur í skyn að Gunnar eigi að mæta Till í stað undradrengsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Darren Till er rísandi stjarna í UFC.
Darren Till er rísandi stjarna í UFC. Vísir/Getty
John Kavanagh, þjálfari Gunnars Nelson, virtist gefa í skyn að Gunnar væri reiðubúinn að berjast við Englendinginn Darren Till í febrúar.

Dana White, forseti UFC, tilkynnti í gær að Till myndi berjast næst við Stephen „Wonderboy“ Thompson á stóru bardagakvöldi þann 24. febrúar. Var rætt um að kvöldið yrði flutt frá Orlando til Englands svo að Till gæti barist á heimavelli.

Till sló í gegn með því að vinna Donald „Cowboy“ Cerrone í bardaga í Póllandi í síðasta mánuði en fyrir það hafði Till ekki verið meðal fimmtán efstu manna á styrkleikalista UFC í veltivigtinni. Eftir sigurinn hoppaði hann upp í áttunda sætið en Gunnar er í því þrettánda. Thompson er efstur á eftir meistaranum Tyron Woodley.

Sjá einnig: Darren Till kláraði Donald Cerrone í Póllandi

Ray Thompson, faðir og þjálfari Stephen, sagði hins vegar í gærkvöldi að Till ætti ekki skilið að fá bardaga gegn honum að svo stöddu.

Kavanagh greip þennan bolta á lofti og skrifaði á Twitter-síðu sína að hann vissi af einum manni sem væri reiðubúinn að berjast við nýstirnið Till. Dylst engum að hann eigi þar við Gunnar Nelson, sem hefur ekki barist síðan að hann barðist við Santiago Ponzinibbio í Glasgow í sumar.

Gunnar tapaði bardaganum en sakaði Argentínumenninn um að hafa potað í augað sitt áður en hann rotaði hann.

Gunnar ákvað eftir bardagann að hvíla sig fram að áramótum en á tísti Kavanagh má ráða að Gunnar sé reiðubúinn að berjast snemma á nýju ári.

MMA

Tengdar fréttir

Darren Till kláraði Donald Cerrone í Póllandi

Darren Till kom verulega á óvart fyrr í kvöld þegar hann sigraði Donald Cerrone í Póllandi í kvöld. Till hefur þar með tekið hástökk í átt að titilbaráttunni.

Till fær draumabardaga Gunnars Nelson

Darren Till frá Liverpool skaut sér upp á stjörnuhimininn er hann pakkaði Donald "Cowboy“ Cerrone saman í Póllandi á dögunum. Í verðlaun fær hann risabardaga á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×