Sport

Sögulegt kvöld í Madison Square Garden á UFC 217

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Vísir/Getty
UFC 217 fór fram í nótt og var bardagakvöldið sögulegt. Nokkuð var um óvænt úrslit og nýja meistara.

UFC 217 fór fram í Madison Square Garden í nótt. Þrír titilbardagar voru á dagskrá og fengum við þrjá nýja meistara.

Georges St. Pierre snéri aftur eftir fjögurra ára hlé frá íþróttinni. Endurkoma hans var talsvert betri en flestir bjuggust við og kláraði hann meistarann Michael Bisping í 3. lotu. St. Pierre kýldi Bisping niður í 3. lotu og svæfði hann svo með hengingu. Ævintýraleg endurkoma hjá hinum 36 ára gamla St. Pierre.

T.J. Dillashaw endurheimti beltið sitt í bantamvigt með sigri á Cody Garbrandt. Dillashaw rotaði Garbrandt í 2. lotu og fagnaði vel og innilega að sigri loknum. Bardaginn gekk þó ekki vandræðalaust fyrir sig hjá Dillashaw sem var kýldur niður í lok 1. lotu. Hann kom þó öflugur til leiks í 2. lotu. Dillashaw byrjaði á því að sparka Garbrandt niður og skömmu seinna kýldi hann Garbrandt niður með hægri krók. Mögnuð frammistaða hjá Dillashaw sem lofaði því að fara niður í fluguvigt til að taka beltið af Demetrious Johnson.

Einhver óvæntustu úrslit ársins litu dagsins ljós þegar Rose Namajunas rotaði Joanna Jedrzejczyk í fyrstu lotu. Namajunas kom afar öflug til leiks og var ekki lengi að kýla niður meistarann. Namajunas rotaði svo Jedrzejczyk eftir rúmar þrjár mínútur af fyrstu lotunni með vinstri krók og nokkrum höggum í gólfinu. Þetta var fyrsti sigur Namajunas eftir rothögg á ferlinum og jafnframt fyrsta tap Jedrzejczyk á ferlinum.

Bardagakvöldið var frábær skemmtun frá fyrsta bardaga en öll önnur úrslit kvöldsins má sjá á vef MMA Frétta hér.

MMA

Tengdar fréttir

Rose fékk sér meistaraklippingu

Allir bardagakapparnir á UFC 217 eru komnir til New York þar sem bardagakvöldið risastóra fer fram á laugardag.

Fyrsti upphitunarþátturinn fyrir UFC 217

Stærsta kvöld ársins hjá UFC er um næstu helgi og upphitun fyrir risakvöldið er hafið. Þá verða þrír titilbardagar á dagskránni plús fullt af öðrum áhugaverðum bardögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×