Bílar

Toyota nálgast GM í sölu í Bandaríkjunum

Finnur Thorlacius skrifar
Toyota RAV4 er söluhæsta bílgerð Toyota í Bandaríkjunum nú.
Toyota RAV4 er söluhæsta bílgerð Toyota í Bandaríkjunum nú.
Japanskir bílaframleiðendur hafa náð miklum og sívaxandi árangri í sölu bíla sinna í Bandaríkjunum á síðustu áratugum og nú er svo komið að Toyota nálgast ískyggilega hratt söluna hjá General Motors sem verið hefur stærsti bílasali vestanhafs æði lengi.

Þegar sölutölur ársins eru skoðaðar kemur í ljós að Toyota er aðeins 70.000 bílum á eftir General Motors í ár ef aðeins eru taldir bílar til almennings, en 360.000 bílum á eftir GM ef svokölluð “fleet”-sala er tekin með, en það er sala á fyrirtækjabílum.

Ef fram sem horfir líður ekki langt þangað til sala Toyota bíla er orðin meiri en hjá GM, en Toyota hefur á síðustu árum tekið framúr hinum tveimur stóru bílaframleiðendum Bandaríkjanna, Ford og Fiat-Chrysler. Það yrði talsverður álitshnekkir fyrir bílaframleiðslu í Bandaríkjunum ef Toyota tæki forystuna í bílasölu vestanhafs, en samt virðist fátt geta komið í veg fyrir það.

Vinsælasti bíll Toyota í Bandaríkjunum nú er RAV4 jepplingurinn og jeppar Toyota seljast einnig gríðarvel. Sala á þeim bíl sem lengi var sá söluhæsti hjá Toyota vestanhafs, Toyota Camry, hefur gefið verulega eftir á kostnað jeppa og jepplinga fyrirtæksins. Toyota Corolla er enn einn bíllinn sem selst líka ágætlega frá Toyota.

Sala Toyota í október var með ágætum og er búist við að Toyota tilkynni um 4% aukna sölu í þeim mánuði á tímum örlítið þverrandi heildarsölu í Bandaríkjunum. Toyota er því enn að vinna á. Það kemur þó nokkuð á óvart að líklega munu aðeins Volkswagen og Audi tilkynna um meiri aukningu í sölu í október af öllum bílaframleiðendum sem selja bíla í Bandaríkjunum. Því virðist Volkswagen bílasamstæðan hafa jafnað sig vel á dísilvélasvindlinu sem uppgötvaðist einmitt í Bandaríkjunum fyrir um tveimur árum síðan.  






×