Menning

Ljóðið er minn helsti innblástur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Kór Langholtskirkju mun syngja undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar.
Kór Langholtskirkju mun syngja undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar.
„Aldrei hvílist ég betur í sálinni en þegar ég er nálægt kórhljómi,“ segir Hreiðar Ingi. Fréttablaðið/Eyþór
Þetta er mikill heiður,“ segir tónskáldið Hreiðar Ingi Þorsteinsson um tónleikana í Langholtskirkju klukkan 16 í dag þar sem kórtónlist hans fær að njóta sín í flutningi Kórs Langholtskirkju, Graduale Nobili, Lilju Daggar Gunnarsdóttur mezzósópran, Franks Aarnik slagverksleikara og Elísabetar Waage hörpuleikara. 

Hann segir viðburðinn eiginlega undirbúning að fertugsafmæli. „Ég verð fertugur snemma á næsta ári og það er eins gott að byrja tímanlega!“ segir hann glaðlega og bætir við að hugmyndin sé sú, ef allt gangi að óskum, að hljóðrita þessa tónlist.

Hreiðar Ingi kveðst eiga rúmlega 50 verk í sinni möppu. 

 

„Í eðli mínu fíla ég ljóðræna tónlist og níutíu og fimm prósent af því sem ég skrifa er fyrir röddina,“ upplýsir hann og segir einfalda ástæðu fyrir því. Hans helsti innblástur sé ljóðið. „Ég hef gaman af að lesa ljóð og geri mikið af því. Stundum þegar ég les ljóð er það einfaldlega þannig að ég ræð ekki við mig og tónarnir koma til mín. Öll þessi verk sem verða flutt í kirkjunni í dag, bæði kirkjuleg og veraldleg, urðu þannig til að eitthvað varð að gerast.“



Innblásturinn kveðst Hreiðar Ingi fá jafnt úr rímuðum og órímuðum ljóðum. „En sum ljóð er ekki hægt að gera tónlist við. Þau eiga bara að fá að vera ljóð í friði. Það gengur heldur ekki að gera hvað sem er fyrir kóra. Auðvitað á það við allt sem maður skrifar. Maður þarf að hugsa um hljóðfærið eins og það er í eðli sínu.“

 

Nú stjórnar Þorvaldur Örn Davíðsson kórnum Graduale Nobili.
Þegar Hreiðari Inga berast pantanir um tónverk kveðst hann oft eiga lista með um 20 ljóðum sem hann hafi lengi langað að tónsetja. „Nú voru á listanum Ferðalok Jónasar Hallgrímssonar, Hvarf séra Odds frá Miklabæ og fallega ljóðið hans Williams Shakespeare, Shall I compare thee to a summer’s day. Líka ljóð frá Ingibjörgu Haralds og Friðriki Hansen og kirkjulegur texti, þýðing Marteins Lúthers á Davíðssálmi.“

Sjálfur hefur Hreiðar Ingi verið í kór frá því hann var sex ára. Núna syngur hann í Schola Cantorum og stjórnar tveimur kórum, Kór MH og Ægisif. Fjórtán ára var hann byrjaður að semja. „Tónlistin er eins og smyrsl fyrir mér, hún græðir og göfgar og aldrei hvílist ég betur í sálinni en þegar ég er nálægt kórhljómi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.