Snorra var í júlí árið 2012 vikið úr starfi sem grunnskólakennari í Brekkuskóla á Akureyri. Ástæða uppsagnar hans voru umdeildar bloggfærslur Snorra þar sem hann skrifaði um samkynhneigð út frá sínu strangkristna hugarfari. Var að mati bæjaryfirvalda ekki talið eðlilegt að kennari grunnskólabarna léti uppi skoðanir sínar á þann hátt að samkynhneigð væri synd og þeirra biði ekkert nema helvíti.
„Samkynhneigð telst vera synd,“ skrifaði Snorri.„Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.“
Uppsögn Snorra var dæmd ólögmæt, bæði í héraðsdómi og Hæstarétti. Fór Snorri fram á 13,7 milljónir króna í bætur.
„Ég þóttist setja fram rökstuddar og hóflegar kröfur en dómskerfið er greinilega á öðru máli,“ segir Snorri á Facebook-síðu sinni. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra í gær.
„Ég velti því fyrir mér að ef dómararnir hér í HDNA væru dómarar í Kjararáði hvort launahækkanir þær sem dæmdar voru þingheimi og ráðherrum hefðu ekki verið mun lægri og róað stéttarfélög alþýðunnar? Svona fór um sjóferð þá. Ég alla vega fékk tvöfalt hærri bætur en Akureyrarbær var tilbúinn að greiða!“