Erlent

Tuttugu starfsmenn Old Vic saka Spacey um ósæmilega hegðun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kevin Spacey hefur löngum verið einn dáðasti leikari Hollywood en undanfarið hafa fjölmargir karlmenn stígið fram og sagt frá kynferðislegri áreitni leikarans.
Kevin Spacey hefur löngum verið einn dáðasti leikari Hollywood en undanfarið hafa fjölmargir karlmenn stígið fram og sagt frá kynferðislegri áreitni leikarans. vísir/getty

Yfirmönnum Old Vic leikhússins í London hafa borist tuttugu vitnisburðir vegna ósæmilegrar hegðunar af hálfu Kevin Spacey er hann starfaði sem listrænn stjórnandi leikhússins.

Spacey starfaði fyrir leikhúsið í ellefu ár en lögreglan í Bretlandi hefur þegar til rannsóknar ásakanir manns sem segir leikarann hafa brotið á sér í London árið 2008.

Þeir sem telja Spacey hafa brotið á sér á meðan hann starfaði fyrir leikhúsið segja að þeim hafi ekki fundist þeir geta greint frá hegðun Spacey á sínum tíma. Segja þeir einnig að Spacey hafi hagað sér án nægjanlegar ábyrgðar innan leikhússins.

Í yfirlýsingu frá leikhúsinu segir að það biðjist afsökunar á því að hafa ekki skapað umhverfi þar sem hægt væri að ræða um slíkar ásakanir að vild.

Þeir sem hafa gefið sig fram við leikhúsið bætast í stóran hóp einstaklinga sem sakað hafa Kevin Spacey um ósæmilega hegðun eða kynferðislega áreitni. Meðal annars hafa tveir aðrir karlmenn sagt að Spacey hafi brotið á þeim þegar þeir voru unglingar.

Átta einstaklingar hafa sakað Spacey um kynferðislega áreitni á tökustað þáttanna House of Cards þar sem Spacey lék aðalhlutverkið.

Ásakanir á hendur Spacey koma í kjölfar hneykslismála tengdum framleiðandanum Harvey Weinstein sem sakaður er um nauðgun og að hafa áreitt tugi kvenna kynferðislega.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×