Körfubolti

Jón Axel gældi við þrefalda tvennu: Með 40 framlagspunkta í stórsigri

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson-skólanum.
Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson-skólanum. Vísir/Getty
Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson átti frábæran leik með Davidson skólanum í bandaríska háskólakörfuboltanum í nótt þegar að lið hans valtaði yfir Charleston Southern, 110-62, í fyrsta leik tímabilsins.

Jón, sem er á sínu öðru ári með Davidson háskólanum, var með 40 framlagspunkta í leiknum og gældi við þrefalda tvennu; 24 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar.

Frábær frammistaða og nýtt persónulegt met í stigaskori hjá Jóni í bandaríska háskólakörfuboltanum.

Jón og samherjar hans hittu nánast að vild fyrir aftan þriggja stiga línuna í nótt og slógu met Troy háskólans frá 1994 í heppnuðum þriggja stiga skotum í Atlantic 10 háskóladeildinni, eða 26 talsins.

Þá tapaði lið Davidson boltanum einungis einu sinni sem er nýtt skólamet.

Davidson skólinn er hvað þekktastur fyrir það að þar lék bandaríski bakvörðurinn Steph Curry áður en hann fór í NBA deildina. Curry er tvöfaldur NBA-meistari með Golden State Warriors og þá hefur hann tvisvar verið kosinn verðmætasti leikmaður deildarinnar.

Nú er það hins vegar íslenski bakvörðurinn sem er að raða niður körfunum með Davidson-háskólanum.

Á fyrsta tímabili sínu með Davidson spilaði Jón 31 af 32 leikjum liðsins, varð fjórði stigahæsti leikmaður liðsins og annar í stoðsendingum og stolnum boltum.

Næsti leikur Jóns Axels og félaga í Davidson verður gegn UNC Wilmington aðfaranótt miðvikudags. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×