Baptistakirkjan í Sutherland Springs í Texas, þar sem 26 manns létu lífið í skotárás um síðustu helgi, verður rifin. Frá þessu greina bandarískir fjölmiðlar.
Einnig hafa komið fram nýjar upplýsingar um árásarmanninn Devin Kelley, sem á áður að hafa talað vel um fjöldamorðingja og sagst vona að hann „hefði hugrekki“ til að gera það sama og þeir.
Frank Pomeroy, prestur kirkjunnar í Sutherland Springs, segir að það yrði of sársaukafullt að halda áfram að nota kirkjuna þar sem árásin var gerð í þessu litla samfélagi. Hefur Pomeray leitað stuðnings hjá öðrum innan baptistakirkjunnar sem styðja hugmyndir hans um niðurrif.
Pomeroy, sem missti dóttur sína í árásinni, vonast til að hægt verði að koma upp minnisvarða á staðnum um þá sem féllu og að koma upp nýrri kirkju.
Í frétt CNN er haft eftir vinkonu Kelley að hann hafi keypt dýr á netinu í þeim eina tilgangi að drepa þau. Vinkonan hafi reynt að útvega Kelley vinnu en segir að samtöl þeirra hafi orðið sífellt óþægilegri með árunum.
Segir vinkonan að Kelley hafi talað vel um Dylann Roof sem skaut níu manns til bana í kirkju í Suður-Karólínu sumarið 2015. „Hann sagði „er þetta ekki töff? Sástu þetta í fréttunum,“ segir vinkonan um Kelley sem á að hafa sagt að hann hann óskaði þess að hafa hugrekki til að framkvæma árás líkt og Roof. Hann kynni hins vegar bara að drepa dýr.
Auk þeirra 26 sem létu lífið þá særðust tuttugu í árásinni og eru ellefu þeirra enn á sjúkrahúsi.
