Menning

Auður Ómarsdóttir sýnir í glænýju rými í Geysi

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Auður Ómarsdóttir er búin að halda hvorki meira né minna en fimm einkasýningar á árinu.
Auður Ómarsdóttir er búin að halda hvorki meira né minna en fimm einkasýningar á árinu. Tara Ösp Tjörvadóttir
Í dag opnar Geysir nýja verslun, Geysir Heima, en hún er til húsa á Skólavörðustíg 12. Þar verður til sölu gjafavara eins og til að mynda rúmföt, keramik, kerti, bækur og jafnvel reiðhjól.

Þetta verður bæði íslensk og erlend hönnun og merki sem ekki hafa áður fengist hér á landi.

Í kjallara verslunarinnar verður svo haldið úti lista- og hönnunargalleríi, en það nefnist Kjallarinn. Þetta er glænýr vettvangur fyrir listamenn og hönnuði sem Geysir býður hér upp á og leggur verslunin upp með að styðja við þann vettvang.

Fyrst til að sýna í þessu nýja rými er Auður Ómarsdóttir myndlistarkona og verður sýning hennar opnuð í dag, á sama tíma og verslunin. Sýningin ber nafnið Hliðstæður og er í formi ljósmynda, teikninga, hugmynda og ferðasagna.

„Þessi sýning er eins og samantekt yfir minningar ársins og ýmsir gluggar opnaðir. Ég er mjög sátt með að sýna í Kjallaranum á Geysi, það er táknrænt og ég finn fyrir miklum krafti,“ segir Auður en þetta er hennar níunda einkasýning og sú fimmta á þessu ári.

Opnunin verður klukkan 17 og verða léttar veitingar í boði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×