Fastir pennar

Pistill sem þú getur ekki verið ósammála

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Samkvæmt áreiðanlegum rannsóknum er það sem ég geri hér á síðum Fréttablaðsins einskis virði. Ég gæti allt eins starfað við að grafa skurði og moka ofan í þá aftur. Það skilar engu og skilur ekkert eftir sig.

Flest lítum við á sjálf okkur sem upplýstar skynsemisverur. Við myndum okkur skoðanir byggðar á staðreyndunum og hafi einhver uppi betri rök skiptum við um skoðun. Ekki rétt?

Rangt. Í ljós kemur að dýrategundin homo sapiens skiptir ekki um skoðun. Sérstaklega ekki ef um er að ræða stjórnmálaskoðanir. Í upphafi árs kynntu taugavísindamenn við Háskóla Suður-Kaliforníu niðurstöður rannsóknar sem sýndu fram á þessa þvermóðsku mannsins. Jafnvel þótt þátttakendum í rannsókninni væru sýndar sannanir þess að þeir hefðu rangt fyrir sér, þrjóskuðust þeir við að skipta um skoðun.

En hvernig stendur á þessu? Myndir voru teknar af heilum þeirra sem tóku þátt í rannsókninni í MRI-skanna. Sýndu þær að heilastöðvar sem ákvarða sjálfsmynd, stýra tilfinningasvörun og meta hættu verða virkar þegar stjórnmálaskoðanir okkar eru dregnar í efa.

Vísindamennirnir komust að þeirri niðurstöðu að það er ekki sannleikurinn sem við stöndum vörð um þegar við rökræðum um stjórnmál heldur ættbálkurinn. Að falla í hópinn skiptir meira máli þegar kemur að því að lifa af heldur en að fara rétt með staðreyndir.

„Stjórnmálaskoðanir eru eins og trúarskoðanir,“ útskýrði Jonas Kaplan sem fór fyrir rannsókninni. „Þær eru annars vegar hluti af sjálfsmynd okkar, hins vegar mikilvægar þegar kemur að því að ákvarða hvaða samfélagshópi við tilheyrum … Íhugi maður að breyta um stjórnmálaskoðun er maður í raun að íhuga að breyta um sjálf.“

Ógn við ættbálkinn

Rannsóknir sýna að okkur finnst ógnvænlegt að lesa blaðagreinar sem innihalda stjórnmálaskoðanir sem stangast á við okkar eigin. Hugurinn túlkar þær sem persónulega árás, ógn við ættbálkinn, stuðningsnetið okkar. Að lesa grein sem við erum sammála vekur hins vegar með okkur sælutilfinningu, því slík grein eykur magn taugaboðefnisins dópamíns í heila.

Í anda jóla, hátíðar ljóss og friðar, hefði ég viljað boða lesendum pólitískan fögnuð sem allir gætu sammælst um. Slík áform eru þó vísindalega dæmd til að mistakast. Það er þó ekkert sem segir að ég geti ekki komið til móts við alla með öðrum hætti.

Um leið og ég óska ykkur, kæru lesendur, gleðilegra jóla deili ég með ykkur uppskrift að bestu súkkulaðiköku í heimi – en súkkulaði, eins og stjórnmálaskoðanir sem eru okkur þóknanlegar, eykur framleiðslu dópamíns í heila. Gleðilega hátíð og verði ykkur að góðu.

Besta súkkulaðikaka í heimi:

350 g dökkt súkkulaði

225 g ósaltað smjör

5 egg

300 g strásykur

100 g eitthvert kex, brotið niður í munnbita

1) Hitið ofninn í 160 gráður (140 ef um er að ræða ofn með viftu). Klæðið lausbotna, smellt kökuform (um 23 cm í þvermál) með bökunarpappír og smyrjið með smjöri. Setjið súkkulaðið og smjörið í pott og bræðið yfir lágum hita. Hrærið saman eggin og sykurinn þangað til blandan er þykk, ljós á litinn og rúmmál hennar hefur tvöfaldast (tekur um 5 mínútur).

2) Hellið súkkulaðiblöndunni út í eggjahræruna og hrærið varlega saman. Bætið kexbitunum út í og hrærið.

3) Hellið blöndunni í formið og bakið í 40-45 mínútur. Takið kökuna úr ofninum og leyfið henni að kólna í kökuforminu í 30-45 mínútur. Nú stendur valið milli tveggja leiða til að bera fram kökuna. Annars vegar er hægt að njóta hennar þegar hún er enn heit og miðja hennar er mjúk og minnir um margt á súkkulaðibúðing. Hins vegar má kæla hana svo að hún harðni og hægt er að skera hana í sneiðar. Gott er að bera kökuna fram með þeyttum rjóma og jarðarberjum.






×