Sport

Gunnar: Þurfti að hvíla heilann út árið eftir rothöggið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gunnar Nelson berst ekki meira á þessu ári.
Gunnar Nelson berst ekki meira á þessu ári. Mynd/Sóllilja Baltasars
Gunnar Nelson, fremsti bardagaíþróttakappi Íslands, vissi, skömmu eftir að hann var rotaður af Santiago Ponzinibbio í Glasgow í júlí, að hann þurfti að taka sér frí út árið. Frá þessi segir hann í viðtali við ESPN.

Gunnar var allt annað en sáttur við þann bardaga en Argentínumaðurinn potaði nokkrum sinnum í augað á Gunnari með þeim afleiðingum að Íslendingurinn sá ekki þegar að rothöggið kom.

Þrátt fyrir að vera ekki sáttur við niðurstöðu bardagans veit Gunnar af mögulegum afleiðingum svona högga og hvað þau geta gert við heilabúið. Það er eitthvað sem Gunnar tekur alvarlega.

„Ég var rotaður. Ég vil gefa heilanum og líkamanum tíma til að jafna sig á því. Ég hef séð menn fara of snemma aftur inn í hringinn og ég skil alveg að það er eitthvað sem menn vilja gera. Maður vill vill koma sér aftur á ról og bæta upp fyrir tapið,“ segir Gunnar.

„Aftur á móti er ég að horfa fram veginn. Ég ætla ekki að fara of snemma inn í búrið og enda uppi með einhverja glerhöku.“

Eftir að Gunnar var rotaður mátti hann ekki æfa af neinu viti í 30 daga en hann fjórfaldaði þann tíma sjálfur til að passa vel upp á sig.

„Ég rétt svo byrjaði að taka á því á æfingum fyrir mánuði síðan. Ég hef hitt taugasérfræðing nokkrum sinnum og hann sagði mér að stundum sést ekki heilaskaði á röntgenmyndum. Þetta þurfa ekki endilega að vera alvarleg meiðsli en það tekur langan tíma fyrir þau að jafna sig,“ segir Gunnar.

„Hættan er ef að maður verður rotaður aftur eða fær heilahristing. Ég hef samt farið í nokkrar skoðanir og það er í fínu lagi með heilann á mér. Ég vil halda honum fullkomnum. Ég er að eldast og vill í framtíðinni geta eytt tíma með börnum og barnabörnum,“ segir Gunnar Nelson.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×