Fulltrúar stjórnarandstöðunnar sitja nú á fundi í fjármála-og efnahagsráðuneytinu þar sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnir fyrir þeim fjárlagafrumvarp næsta árs.
Um er ræða fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks sem tók við völdum þann 30. nóvember síðastliðinn en frumvarpið verður kynnt á blaðamannafundi í fyrramálið og fer fyrsta umræða um það fram á föstudaginn.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, gagnrýndi það á Facebook-síðu sinni í gær að fá ekki kynningu á frumvarpinu fyrr en klukkan 16 í dag þar sem hann vildi að minnsta kosti fá að skoða það áður en til kynningarinnar kæmi.
Óskaði hann eftir því að fá frumvarpið sent rafrænt í síðasta lagi í morgun en samkvæmt því sem fram kemur á Facebook-síðunni hans hafði ekkert svar borist við þeirri beiðni fyrir um tveimur tímum síðan.
Björn Leví er á meðal þeirra fulltrúa stjórnarandstöðunnar sem nú fá kynningu á frumvarpinu en auk hans sitja meðal annars fundinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, og Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins.
Fjárlagafrumvarpið kynnt fyrir stjórnarandstöðunni
Tengdar fréttir
Dagskrá setningar Alþingis á fimmtudaginn
Forseti Íslands setur sitt þriðja þing á rúmu ári.
Launakostnaður á Alþingi aldrei hærri
Metfjöldi stjórnmálaflokka á Alþingi elur af sér fleiri formenn og þingflokksformenn sem fá álagsgreiðslur á þingfararkaup sitt. Formenn flokka fá 50 prósent álag á launin sín en formenn þingflokka 15 prósent.