Bílar

Audi mun hætta smíði R8

Finnur Thorlacius skrifar
Audi R8 er 610 hestafla orkubúnt og fegurðardís að auki.
Audi R8 er 610 hestafla orkubúnt og fegurðardís að auki. Rúnar Hreinsson
Audi hefur smíðað sportbílinn R8 frá árinu 2006 og hefur bíllinn frá upphafi vakið aðdáun flestra, enda bæði laglegur og mjög öflugur bíll þar á ferð. Það dugar þó ekki til að halda lífi í smíði hans því staðreyndin er sú að hann hefur aldrei selst nógu vel til að réttlæta smíði hans til frambúðar. Verður smíði hans líklega hætt áður en þessi áratugur er úti.

Audi R8 hefur ávallt verið dýr bíll og er þar komin helsta skýringin á dræmri sölu. Á þeim 11 árum sem smíði R8 hefur staðið yfir hafa einungis selst um 30.000 bílar, mest árið 2008 þegar 5.656 R8 bílar seldust, en í fyrra seldust 3.688 bílar. Audi R8 er með 610 hestafla V10 vél sem eðlilega mengar heilmikið og engir eru rafmótorarnir til að að minnka útblásturinn. Öllum bílaframleiðendum er með síauknum kröfum gert að minnka útblástur bíla sinna og það gerir Audi R8 eðlilega að skotmarki sem auðvelt er að réttlæta brotthvarf á.

Audi R8 E-Tron var framleiddur frá árinu 2011 og var sá bíll eingöngu drifinn áfram með rafmagni. Framleiðslu hans verður einnig hætt líka og gæti það talist eðlilegt í ljósi þess að hvert eintak hans kostaði 1 milljón evra, eða 125 milljónir króna. Audi R8 mun verða áfram í boði líklega næstu tvö árin eða svo og verður ódýrasta gerð hans líklega í boði með sömu 2,9 lítra V6 vél og finna má í Audi RS4 og RS5 bílunum og skilar hún 470 hestöflum.






×