Menning

Stalker og Spice Girls

Magnús Guðmundsson skrifar
Úr Stalker eftir Andrei Tarkovsky.
Úr Stalker eftir Andrei Tarkovsky.
Nýárssýning Svartra sunnudaga í Bíói Paradís er ekki af lakari endanum en á nýársdag klukkan 20 verður sýnt stórvirkið Stalker úr smiðju leikstjórans Andreis Tarkovsky. Ása Baldursdóttir, dagskrárstjóri í Bíói Paradís, segir að sýningin sé hluti af því að Svartir sunnudagar hafi ákveðið að heiðra fjóra leikstjóra á svokölluðum Meistaravetri og að Tarkovsky sé einn af þeim.

„Við vorum reyndar búin að sýna þessa mynd einu sinni áður en það vissu svo fáir af því að það hefur mikið verið kallað eftir þessari sýningu. Svekk­elsi þeirra sem misstu af þessu var mikið ekki síst vegna þess að þetta er svo rosalega mikil hvítatjaldsupplifun. Við vorum líka svo heppin að fá bæði leyfi og einstaklega gott sýningareintak þannig að þetta verður sýning í allra bestu mögulegu gæðum.“

Ása Baldursdóttir, dagskrárstjóri í Bíói Paradís.
Þeir sem standa að Svörtum sunnudögum í Bíói Paradís eru þeir Sjón, Sigurjón Kjartansson og Hugleikur Dagsson og Ása segir að þessi nefnd sé mikið einvalalið sem geri miklar kröfur til mynda enda hafi aðsóknin að sýningunum þeirra verið góð. „Þeir lögðu líka áherslu á að Stalker væri tilvalin mynd til þess að byrja sýningarárið. Það er svo auðvitað ekki annað hægt en að fara eftir því sem þessar kanónur segja því þetta er líkast til ein flottasta ef ekki allra flottasta nefnd á landinu.“

Stalker segir frá manni sem býr yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum og fylgir tveimur mönnum í gegnum svæði þar sem er að finna herbergi sem uppfyllir óskir manna.

Þessi mynd er einstakt heimspekilegt ferðalag um hugarheim mannsins og þarna er tekist á við svo ótrúlega margt í tilvist okkar sem á ekki síður erindi í dag en þegar myndin var frumsýnd árið 1979.“

En það er líka fjölmargt fleira skemmtilegt á leiðinni í Bíó Paradís og þar á meðal eru verstu myndir sem gerðar hafa verið. Ása hlær við þessu og segir ástæðuna vera þá að Hugleikur Dagsson hafi ekki fengið að sýna lélegar myndir á Svörtum sunnudögum og hann hafi því ákveðið að búa til sitt eigið hliðarverkefni. „Hann ætlaði að vera með ömurlegan október en það gekk ekki því Sigurjónarnir tóku það ekki í mál. Þá stofnaði hann það sem hann kallar Prump í Paradís og þar sýnir hann bestu verstu myndirnar og fær til sín gesti. Á nýju ári verður hann þar með hverja hörmungina á fætur annarri og til að mynda bíða eflaust margir eftir Spice Girls-myndinni svo dæmi sé tekið.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.