Menning

Var Lína Langsokkur í ár eftir fyrstu leikhúsferð

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég hafði þungar áhyggjur af því fyrir nokkrum árum hversu lítið var um nýsköpun leikverka fyrir börn. Við höfum tekið okkur á í þeim efnum, samt mættu vera fleiri barnasýningar,“ segir Salka.
"Ég hafði þungar áhyggjur af því fyrir nokkrum árum hversu lítið var um nýsköpun leikverka fyrir börn. Við höfum tekið okkur á í þeim efnum, samt mættu vera fleiri barnasýningar,“ segir Salka. Vísir/Eyþór
Skúmaskot er dálítið fyndin hasarfantasía. Við byrjum í kunnuglegu umhverfi en förum svo niður í dularfullan leyniheim, þar eru háski og hættur við hvert fótmál,“ segir leikskáldið Salka Guðmundsdóttir. Hún er höfundur verksins Skúmaskot sem frumsýnt verður á Litla sviði Borgarleikhússins klukkan 13 á morgun, sunnudag.

„Þetta leikrit er ekki fyrir allra yngstu börnin heldur langaði mig að skrifa fyrir þau sem eru orðin átta ára og eldri og hafa gaman af að láta segja sér sögur með smá spennu,“ segir hún og kveðst sjálf hafa kunnað að meta það að láta aðeins hræða sig þegar hún var krakki, svo fremi sem hún gæti treyst því að allt færi vel að lokum.





Þórunn Arna og Vala Kristín í hlutverkum sínum í Skúmaskoti. Mynd/Grímur Bjarnason
Salka hefur einbeitt sér að leikritaskrifum síðustu ár. Öðru hvoru sleppir hún barninu í sér lausu í þeim skrifum. Fyrir nokkrum árum sendi hún frá sér leikrit sem hét Hætturnar í Huliðsdal og annað gerði hún fyrir útvarp sem heitir Ljósberarnir, það var páskaleikritið hjá RÚV í hittiðfyrra. En eru henni einhverjar sýningar úr leikhúsum eftirminnilegar frá því hún var barn?

„Já, fyrsta sýningin sem ég sá var Lína Langsokkur, þá var ég bara mjög lítil. Pabbi minn, Guðmundur Ólafsson, var að leika aðra lögguna og ég lifði mig svo gríðarlega inn í efnið að ég var Lína í heilt ár á eftir. Skikkaði foreldra mína til að vera Tommi og Anna sem var ekki skemmtilegt hlutskipti í samanburði við mitt!“





Leikararnir í Skúmaskoti eru allir uppkomnir en geta leikið fólk á öllum aldri, að sögn Sölku. Þeir eru Halldór Gylfason, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir og Þórunn Arna Kristjánsdóttir. „Þetta er afskaplega skemmtilegur hópur, fólk sem hefur gaman af að leika sér og þau halda í barnið í sjálfum sér. Það sama gildir um alla sem koma að sýningunni. Það er nauðsynlegt fyrir þá að rannsaka, vera forvitnir og uppgötva eitthvað nýtt,“ segir Salka.

Leikstjórinn, Gréta Kristín Ómarsdóttir, átti sterka innkomu á síðasta ári enda var hún tilnefnd til þrennra Grímuverðlauna og var útnefnd þar Sproti ársins. „Það var spennandi að fá hana í þetta verkefni,“ segir Salka.

Þrjár barnasýningar eru frumsýndar í leikhúsunum þessa helgi. Það finnst Sölku frábært.

„Ég hafði þungar áhyggjur af því fyrir nokkrum árum hversu lítið var um nýsköpun leikverka fyrir börn. Við höfum tekið okkur á í þessu efni, samt mættu vera fleiri barnasýningar á minni sviðum leikhúsanna. Þó er þakkarvert hvað sjálfstæðu hóparnir eru duglegir að sinna barnamenningunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×