Ekki aftur Hörður Ægisson skrifar 5. janúar 2018 07:00 Um eitt virðast flestir vera sammála. Snúa þurfi af þeirri braut sem einkennt hefur íslenskan vinnumarkað um áratugaskeið þar sem launþegahópar knýja á um launaleiðréttingar fyrir sinn hóp á víxl. Niðurstaðan hefur enda nánast undantekningarlaust verið sú hin sama. Samið er um innstæðulausar nafnlaunahækkanir sem leiða til aukinnar verðbólgu, hærri vaxta og lægra gengis krónunnar. Vandamálið er hins vegar að þótt flestir vilji forðast þetta þekkta stef - stundum kallað höfrungarhlaup - þá eru á sama tíma allir launþegahópar þeirrar skoðunar að það þurfi einungis að „leiðrétta“ þeirra laun. Og framhaldið þekkja síðan allir. Nú er vanhugsað útspil kjararáðs, sem hefur síðustu misseri ákvarðað tugprósenta launahækkanir til ýmissa hópa sem heyra undir ráðið, notað sem rök fyrir því að rjúfa þá launastefnu sem var mörkuð með kjarasamningum á almennum vinnumarkaði 2015. Ólíklegt er að nokkur muni græða á því að leggja upp í slíka vegferð. Öllum ætti að vera ljóst að svigrúm til mikilla launahækkana er ekki fyrir hendi. Því verður vart trúað að forystumenn í verkalýðshreyfingunni ætli að efna til kjarastríðs eftir að kaupmáttur hefur hækkað um 20 prósent frá því í ársbyrjun 2015. Það hljómar eins og hvert annað öfugmæli. Sá tónn sem heyrist frá samtökum opinberra starfsmanna, sem eiga nú í kjaraviðræðum við ríkið, gefur þó ekki tilefni til að ætla að þar verði horft til þess að semja um launahækkanir í samræmi við stöðu þjóðarbúsins. Allir virðast hafa gleymt því eftirsóknarverða markmiði að við gerð kjarasamninga verði lært af reynslu hinna Norðurlandanna þar sem kaupmáttur hefur aukist á grundvelli lítillar verðbólgu, lágra vaxta og stöðugs gengis. Þannig var í Noregi nýlega samið um tæplega tveggja prósenta nafnlaunahækkun á vinnumarkaði, litlu meira en verðbólga mælist þar í landi. Af hverju? Af því að þar ríkir sameiginlegur skilningur á því hjá aðilum á vinnumarkaði - að minnsta kosti meiri en þekkist hérlendis - að atvinnulífið stendur ekki undir meiri launakostnaði við núverandi efnahagsaðstæður. Staðan er þessi. Eftir miklar launahækkanir og gengisstyrkingu krónunnar frá árinu 2015 hefur raungengið sjaldan verið hærra. Launakostnaður fyrirtækja hefur hækkað, mælt í sömu mynt, um fjörutíu prósent meira en í helstu samkeppnisríkjum Íslands. Hlutfall launa af landsframleiðslu er það hæsta á Norðurlöndum og Seðlabankinn hefur sagt að geta fyrirtækja til að taka á sig frekari kostnaðarhækkanir gæti verið „komin að endamörkum“. Laun verða nefnilega ekki ákvörðuð án tillits til verðmætasköpunar í hagkerfinu heldur hljóta þau að taka mið af samkeppnishæfni landsins hverju sinni en við blasir að helstu útflutningsgreinarnar eru í aðþrengdri stöðu um þessar mundir. Mestu skiptir í komandi kjaralotu að standa vörð um kaupmáttaraukningu síðustu ára og þann verðstöðugleika sem hefur gefið Seðlabankanum færi á að lækka vexti. Sökum óvenjulegra aðstæðna – mikillar gengisstyrkingar, hagstæðra viðskiptakjara og lægra vöruverðs vegna afnáms tolla og vörugjalda – þá fór verðbólgan ekki af stað eins og óttast var eftir þær launahækkanir sem samið var um í síðustu kjarasamningum. Það væri fádæma ábyrgðarleysi að veðja á að lukkan verði aftur með okkur í liði í þetta sinn. Sá leikur verður alveg örugglega ekki endurtekinn í bráð.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hörður Ægisson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Um eitt virðast flestir vera sammála. Snúa þurfi af þeirri braut sem einkennt hefur íslenskan vinnumarkað um áratugaskeið þar sem launþegahópar knýja á um launaleiðréttingar fyrir sinn hóp á víxl. Niðurstaðan hefur enda nánast undantekningarlaust verið sú hin sama. Samið er um innstæðulausar nafnlaunahækkanir sem leiða til aukinnar verðbólgu, hærri vaxta og lægra gengis krónunnar. Vandamálið er hins vegar að þótt flestir vilji forðast þetta þekkta stef - stundum kallað höfrungarhlaup - þá eru á sama tíma allir launþegahópar þeirrar skoðunar að það þurfi einungis að „leiðrétta“ þeirra laun. Og framhaldið þekkja síðan allir. Nú er vanhugsað útspil kjararáðs, sem hefur síðustu misseri ákvarðað tugprósenta launahækkanir til ýmissa hópa sem heyra undir ráðið, notað sem rök fyrir því að rjúfa þá launastefnu sem var mörkuð með kjarasamningum á almennum vinnumarkaði 2015. Ólíklegt er að nokkur muni græða á því að leggja upp í slíka vegferð. Öllum ætti að vera ljóst að svigrúm til mikilla launahækkana er ekki fyrir hendi. Því verður vart trúað að forystumenn í verkalýðshreyfingunni ætli að efna til kjarastríðs eftir að kaupmáttur hefur hækkað um 20 prósent frá því í ársbyrjun 2015. Það hljómar eins og hvert annað öfugmæli. Sá tónn sem heyrist frá samtökum opinberra starfsmanna, sem eiga nú í kjaraviðræðum við ríkið, gefur þó ekki tilefni til að ætla að þar verði horft til þess að semja um launahækkanir í samræmi við stöðu þjóðarbúsins. Allir virðast hafa gleymt því eftirsóknarverða markmiði að við gerð kjarasamninga verði lært af reynslu hinna Norðurlandanna þar sem kaupmáttur hefur aukist á grundvelli lítillar verðbólgu, lágra vaxta og stöðugs gengis. Þannig var í Noregi nýlega samið um tæplega tveggja prósenta nafnlaunahækkun á vinnumarkaði, litlu meira en verðbólga mælist þar í landi. Af hverju? Af því að þar ríkir sameiginlegur skilningur á því hjá aðilum á vinnumarkaði - að minnsta kosti meiri en þekkist hérlendis - að atvinnulífið stendur ekki undir meiri launakostnaði við núverandi efnahagsaðstæður. Staðan er þessi. Eftir miklar launahækkanir og gengisstyrkingu krónunnar frá árinu 2015 hefur raungengið sjaldan verið hærra. Launakostnaður fyrirtækja hefur hækkað, mælt í sömu mynt, um fjörutíu prósent meira en í helstu samkeppnisríkjum Íslands. Hlutfall launa af landsframleiðslu er það hæsta á Norðurlöndum og Seðlabankinn hefur sagt að geta fyrirtækja til að taka á sig frekari kostnaðarhækkanir gæti verið „komin að endamörkum“. Laun verða nefnilega ekki ákvörðuð án tillits til verðmætasköpunar í hagkerfinu heldur hljóta þau að taka mið af samkeppnishæfni landsins hverju sinni en við blasir að helstu útflutningsgreinarnar eru í aðþrengdri stöðu um þessar mundir. Mestu skiptir í komandi kjaralotu að standa vörð um kaupmáttaraukningu síðustu ára og þann verðstöðugleika sem hefur gefið Seðlabankanum færi á að lækka vexti. Sökum óvenjulegra aðstæðna – mikillar gengisstyrkingar, hagstæðra viðskiptakjara og lægra vöruverðs vegna afnáms tolla og vörugjalda – þá fór verðbólgan ekki af stað eins og óttast var eftir þær launahækkanir sem samið var um í síðustu kjarasamningum. Það væri fádæma ábyrgðarleysi að veðja á að lukkan verði aftur með okkur í liði í þetta sinn. Sá leikur verður alveg örugglega ekki endurtekinn í bráð.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu.