Menning

Krítíkerar Kastljóssins kjöldregnir á Facebooksíðu Illuga

Jakob Bjarnar skrifar
Bryndís og Snæbjörn reyndust ekki ánægð með Hafið, leikurum og öðrum menningarvinum til mikillar furðu.
Bryndís og Snæbjörn reyndust ekki ánægð með Hafið, leikurum og öðrum menningarvinum til mikillar furðu.
Leikhúskrítík Kastljóssins féll heldur betur í grýttan jarðveg meðal leikara Þjóðleikhússins. Bryndís Loftsdóttir og Snæbjörn Brynjarsson ásamt Bergsteini Sigurðssyni menningarritstjóra Ríkissjónvarpsins fjölluðu um Hafið, jólasýningu Þjóðleikhússins, í Kastljósinu í gærkvöldi. Þeim þótti lítt til sýningarinnar koma og ljóst að umsögn þeirra féll ekki í kramið meðal leikara hússins og ýmissa annarra menningarinnar vina, nema síður sé.

Illugi Jökulsson rithöfundur og fjölmiðlamaður var ekki kátur með krítíkina, en kona hans Guðrún S. Gísladóttir fer með hlutverk í sýningunni sem er leikstýrt af Sigurði Sigurjónssyni.

„Furðulegt spjall um Hafið í sjónvarpinu áðan. Auðvitað er öllum heimilt að hafa hvaða skoðun sem menn vilja á leikritum og uppsetningum en að tala fyrst um hvað leikritið sé voða gott og dramatískt en masa síðan um hvað persónurnar séu einfeldningslegar, söguþráðurinn billegur og átökin einskis verð - það er frekar skrýtið. Og klykkja svo út með yfirlæti um hvað manni þyki vænt um höfundinn,“ skrifar Illugi á Facebooksíðu sina.

Algerlega með ólíkindum

Baldur Trausti Hreinsson, sem leikur í sýningunni, tekur undir með Illuga. Hann er reyndar furðu lostinn: „Alveg makalaust ég náði þessu bara ekki.“ Og Guðrún telur ljóst hvað þarna hangir á spýtunni: „Bryndis sjálfstæðiskona vill ekki að sullað sé í sjónum hennar,og hinn bara elti.“

Pálmi Gestsson leikari leggur orð í belg og gefur ekki mikið fyrir vitsmuni gagnrýnenda: „Þetta fannst mér með ólíkindum. Það sem ég þó hjó mest eftir þegar gagnrýnandinn sagði (amk svona efnislega) með hálfgerðri vantrú og hnussi að þetta væri gott fyrir þá sem tryðu því að einhverjir efnamenn (kvótakóngar) hefðu framtíð heils byggðarlag í hendi sér! Ef henni finnst það ótrúverðugt veit hún ekki mikið, hvorki um kvótakerfið né landsbyggðina svo mikið er víst. Já mér fannst þetta skrýtið spjall.“

Hvað er í gangi?

Og þannig er andinn á síðu Illuga, hvar fólk furðar sig á þessari gagnrýni sem Illugi telur reyndar langt fyrir neðan virðingu Ríkisútvarpsins.

„Ég bið afsökunar, en hverslags umræður voru þetta um leiksýninguna “Hafið” á RÚV áðan?Átti þetta að vera leikdómur um Hafið? Eða var þetta einhverskonar síðbúið útvarpsskaup í beinni útsendingu. Hvað var í gangi?“ spyr leikkonan Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir.

Bergsteinn getur ekki tjáð sig

Og Ómar Ragnarsson fjölmiðlamaður með meiru vill taka undir það sem fram kemur á síðu Illuga: „Hvað eftir annað var sagt að „eitthvað vantaði“ en ekkert sagt hvað það var. Það var bara eitthvað að. Í minni sveit var slíkt kallað nöldur. En, svo er annað, Pálmi, sá þig fara á kostum á Hringbraut sem jafn ólíkir menn og Jón Sigurðsson, Einar Ben og Laxness og gapti yfir frammistöðu þinni!“

Vísir leitaði viðbragða Bergsteins Sigurðssonar, hvort hann væri ekki örugglega búinn að reka þau Bryndísi og Snæbjörn? En, Bergsteinn hefur takmarkaðan húmor fyrir svo gráu gríni og færðist undan því að tjá sig um málið. Sagðist ekki geta það; stundum væru gagnrýnendur ánægðir með sýningar, stundum síður ánægðir. Og viðbrögðin eru eftir því, eins og gengur.

Lofsamlegir dómar

Hvort sem það eru viðbrögð við þessum leikdómi Kastljóssins eður liður í eðlilegri markaðssetningu hefur Þjóðleikhúsið nú í morgun vakið athygli á því á póstlista sínum að Hafið hafi fengið góðar viðtökur meðal gagnrýnenda, þá annarra en Bryndísar og Snæbjörns:

„Hafið frumsýnt á Stóra sviðinu. Frábærar viðtökur!

Hafið eftir Ólaf Hauk Símonarson var frumsýnt á Stóra sviðinu á annan dag jóla.

⭐⭐⭐⭐ „...okkar bestu leikrit standast tímans tönn.“

S.J. Fbl..

⭐⭐⭐⭐⭐

„...til hamingju með þetta afrek. Þessi sýning á erindi og nýtur vonandi langra lífdaga.“

B.S.- dv.is


Tengdar fréttir

Öldurót kynslóðanna

Íslensk nýklassík framreidd á hefðbundinn en heillandi máta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×