Jólatré í janúar Kristín Ólafsdóttir skrifar 3. janúar 2018 07:00 Það er fátt jafn dapurlegt og uppstrílað jólatré inni í stofu fyrstu dagana í janúar. Einu sinni stofustáss en umbreytist í aðskotahlut á nýju ári. Týnir tilgangi sínum á einni nóttu. Ég sé sjálfa mig í þessu tré. Maður er til dæmis svolítið jólatré í janúar fyrstu dagana í ræktinni eftir langt, langt...langt... frí. Harkaleg iðnaðarlýsing og þungur daunn af svita verka letjandi. Markmiðin eru óyfirstíganleg og harðsperrurnar aftur orðnar framandi. Svo finnur maður fyrir erkitilfelli af jólatré í janúar-heilkenninu þegar sólarhringurinn er þvingaður í samt lag og vinna eða skóli hakka sig inn í rútínuna á ný. Maður er ryðgaður. Man ekki hvað maður á nákvæmlega að vera að gera. Lyppast niður í stólnum og byrjar aftur að naga neglurnar. Fingrasetning á lyklaborð lærð upp á nýtt. Greinarnar drjúpa niður í gólf. Fimmtán hnébeygjur, ekki þrjátíu eins og í nóvember, og lærin brenna í vítiseldi. Stjarnan á toppnum búin að tapa ljómanum og orðin óþolandi hallærisleg. En svo kemur þrettándinn og trénu er þrusað út, fuðrar upp í bálkesti undir fölskum söng barna með KR-húfur og bleik blys. Líf og tími líður og liðið er nú ár, og nýtt hefst og það er gott að muna að það er í lagi að taka það ekki strax með trompi. Það er í lagi að staulast ekki nema 500 metra á brettinu og þurfa sjö kaffibolla til að gefa hreinlega ekki upp öndina fyrsta vinnudaginn. Það er í lagi að leyfa sér að vera örlítið jólatré í janúar, jafnvel fram í febrúar. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Kristín Ólafsdóttir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun
Það er fátt jafn dapurlegt og uppstrílað jólatré inni í stofu fyrstu dagana í janúar. Einu sinni stofustáss en umbreytist í aðskotahlut á nýju ári. Týnir tilgangi sínum á einni nóttu. Ég sé sjálfa mig í þessu tré. Maður er til dæmis svolítið jólatré í janúar fyrstu dagana í ræktinni eftir langt, langt...langt... frí. Harkaleg iðnaðarlýsing og þungur daunn af svita verka letjandi. Markmiðin eru óyfirstíganleg og harðsperrurnar aftur orðnar framandi. Svo finnur maður fyrir erkitilfelli af jólatré í janúar-heilkenninu þegar sólarhringurinn er þvingaður í samt lag og vinna eða skóli hakka sig inn í rútínuna á ný. Maður er ryðgaður. Man ekki hvað maður á nákvæmlega að vera að gera. Lyppast niður í stólnum og byrjar aftur að naga neglurnar. Fingrasetning á lyklaborð lærð upp á nýtt. Greinarnar drjúpa niður í gólf. Fimmtán hnébeygjur, ekki þrjátíu eins og í nóvember, og lærin brenna í vítiseldi. Stjarnan á toppnum búin að tapa ljómanum og orðin óþolandi hallærisleg. En svo kemur þrettándinn og trénu er þrusað út, fuðrar upp í bálkesti undir fölskum söng barna með KR-húfur og bleik blys. Líf og tími líður og liðið er nú ár, og nýtt hefst og það er gott að muna að það er í lagi að taka það ekki strax með trompi. Það er í lagi að staulast ekki nema 500 metra á brettinu og þurfa sjö kaffibolla til að gefa hreinlega ekki upp öndina fyrsta vinnudaginn. Það er í lagi að leyfa sér að vera örlítið jólatré í janúar, jafnvel fram í febrúar. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.