Fastir pennar

Forgangsröðun

Hörður Ægisson skrifar
Mjúk lending í efnahagslífinu hefur verið undantekning fremur en regla í íslenskri hagsögu. Þetta er ágætt að hafa í huga nú þegar mesta spennan í þjóðarbúskapnum er að baki. Hagvöxtur er að minnka, ekki hvað síst vegna þess að farið er að hægja nokkuð á hinum gríðarmikla vexti í ferðaþjónustu, og útlit er fyrir að viðskiptaafgangurinn fari þverrandi. Þótt staðan í efnahagsmálum nú um stundir sé í raun fordæmalaus, sem birtist meðal annars í þeirri staðreynd að Ísland er orðið að lánveitanda við útlönd, þá mun eftir sem áður mikið velta á opinberri hagstjórn svo þessari góðu stöðu verði ekki glutrað niður. Þar skiptir mestu máli stefnan í ríkisfjármálum.

Flestum ætti að vera ljóst að stjórnvöld hafa fyrir margt löngu misst öll tök á stöðugri útgjaldaaukningu hins opinbera. Ríkisútgjöld aukast um tugi milljarða á hverju ári. Engin undantekning var á því í frumvarpi fjármálaráðherra sem var samþykkt á Alþingi í lok síðasta árs. Útgjöldin voru þvert á móti aukin enn meira frá því sem áður var áformað í fjárlagafrumvarpi fyrri ráðherra. Það er engin ástæða til að hreykja sér sérstaklega af því að skila afgangi á fjárlögum sem nemur 1,3 prósentum af landsframleiðslu á sama tíma og skatttekjur ríkissjóðs hafa stóraukist á síðustu árum samhliða hinum mikla uppgangi í efnahagslífinu. Það er umtalsvert minni afgangur en var á rekstri ríkissjóðs á árunum í aðdraganda fjármálahrunsins 2008.

Þegar þessi mynd er dregin upp þá skýtur það skökku við þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, eins og kom fram í máli hans á Skattadegi Deloitte, SA og Viðskiptaráðs í vikunni, segir að lækkun skatta sé ekki brýnasta málið um þessar mundir í ljósi efnahagsuppsveiflunnar. Ekki skal gera lítið úr mikilvægi þess að skattalækkanir séu almennt vel tímasettar og ekki ákvarðaðar í tómarúmi við efnahagsástandið hverju sinni. Ríkisstjórnin, eins og ávallt, stóð hins vegar frammi fyrir valkostum. Hún kaus þá forgangsröðun að halda áfram á braut þensluhvetjandi ríkisfjármála í stað þess að leita leiða til að hagræða og auka aðhald í ríkisrekstri – og þannig skapa efnahagslegar forsendur fyrir því að ráðast í tímabæra lækkun skatta á heimili og fyrirtæki. Ekki er vanþörf þar á. Ísland er háskattaríki en skattlagning hins opinbera er óvíða meiri meðal OECD-ríkja en hér á landi.

Sú ákvörðun stjórnvalda að gefa enn frekar í þegar kemur að ríkisútgjöldum hefur hins vegar ekki aðeins áhrif á svigrúm til að fara í skattalækkanir heldur einnig á vaxtastigið í landinu. Í viðtali við ViðskiptaMoggann í liðinni viku sagðist Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þeirrar skoðunar að „vextir hefðu mátt lækka hraðar á þeim stöðugleikatíma sem við höfum notið“. Undir þá skoðun má taka en hér fer ekki alveg saman hljóð og mynd hjá ráðherranum. Það fer illa saman að kalla eftir lægri vöxtum en um leið fara fyrir ríkisstjórn sem hefur kosið að slaka á aga í ríkisfjármálum með þeim afleiðingum að líkur á frekari vaxtalækkunum Seðlabankans eru nú hverfandi. Það eru vonbrigði, en þau voru líklega fyrirsjáanleg.

Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu. 






×