Er ekki ráð að flagga?
Á morgun mun Davíð ná þeim merka áfanga að verða sjötugur. Og eiga helstu aðdáendur hans erfitt með að leyna tilhlökkun sinni og spenningi. Stjórnandi hóps sem finna má á Facebook og heitir „Davíð og arfleifðin“, Sveinn Óskar Sigurðsson bendir á þessa staðreynd og spyr: „Væri ekki ráð að flagga honum til heiðurs?“
Vel er spurt. Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor hlýtur að teljast meðal helstu aðdáenda Davíðs og hann segir á sinni Facebooksíðu: „Tímamót hjá góðum vini á morgun,“ og tengir við tilkynningu sem birtist í Morgunblaðinu í morgun þar sem greinir frá því að Árvakur, útgáfufélag blaðsins, ætli að efna til sérstaks afmælisfagnaðar í tilefni dagsins.
Okkar allra besti maður
Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, leggur orð í belg á síðu Hannesar: „Heill höfðingja vorum. Stórmerkur samtíðarmaður á góðum tímamótum. Held bara að hann yngist með hverju árinu. Innilega til hamingju.“
Það gerir Júlíus Hafstein sendiherra einnig: „Forustumaðurinn. Hamingjuóskir.“ En, Júlíus var einmitt skipaður sendiherra í skammvinnri tíð Davíðs í utanríkisráðuneytinu, ásamt tíu öðrum.
Nú, Stefán Friðrik Stefánsson er ákaflega flokkshollur Sjálfstæðismaður og hann leggur þetta í púkkið: „Okkar besti maður - alvöru leiðtogi.“ Og vonandi verður nú enginn til að skilja orð Stefáns Friðriks svo, í ljósi þess að merking þrífst á andstæðu sinni, að núverandi formaður sé það ekki.
Enginn maður jafn sigursæll og vinsæll
Hermann Guðmundsson fyrrverandi forstjóri, á einnig erfitt með að leyna tilhlökkun sinni og birtir á sinni Facebooksíðu pistil þar sem hann skautar yfir feril Davíðs: „Enginn maður hefur verið umdeildari á Íslandi s.l. ár.
Ferill sem spannar 9 ár í stól borgarstjóra og 13 ár sem forsætisráðherra auk árs í Utanríkisráðuneytinu er ævistarf sem flestir gætu verið sáttir við.
Enginn maður hefur verið sigursælli og vinsælli í íslenskum stjórnmálum samtímans en enginn hefur verið jafn umdeildur og jafnvel hataður á köflum.
Hvað sem menn um hann segja hefur enginn getað efast um að efst í huga hans hafa ávallt verið hagsmunir þjóðar og ríkissjóðs hvort sem allt heppnaðist vel eða ekki.
Nú á Davíð Oddsson sjötugsafmæli á morgun, það er stór áfangi sem vert er að fagna og líklega fatta margir ekki fyrr en of seint hversu mikilvægur og gagnlegur ferill hans var fyrir land og þjóð þegar á heildina er litið.“
Ýmsir taka undir með Hermanni, þeirra á meðal Valtýr Björn Valtýsson íþróttafréttamaður sem þarf ekki að hafa mörg orð til að komast beint að kjarna hvers máls: „Flottur“.
Mun Davíð hætta á Mogganum?
Ýmsir hafa velt því fyrir sér hvort Davíð muni, í ljósi þessara tímamóta, láta af störfum sem ritstjóri Morgunblaðsins. Ekkert hefur komið fram þar um en reglur Árvakurs kveða á um að þegar menn hafi náð þeim aldri skuli þeir láta af störfum.
Vísir gerði tilraun til að ná tali af Haraldi Johannessen, samritstjóra Davíðs á Morgunblaðinu og framkvæmdastjóra, en án árangurs. Þá hefur Haraldur ekki svarað fyrirspurn Vísis. Hún fer hér á eftir en Vísir vill nota tækifærið, taka forskot á sæluna og bætast þar með í hóp aðdáenda hans og óska Davíð til hamingju með daginn á morgun.
Fyrirspurn til Haralds
Heill og sæll Haraldur!
Ég heiti Jakob Bjarnar og er blaðamaður á Vísi. Ég var að reyna að ná í þig símleiðis en þú varst ekki til svara skv. konunni á símanum sem benti mér á að best væri að skjóta á þig tölvupósti. Sem ég þá geri hér með.
Þannig er að ég rek í það augu víða á netinu, á samfélagsmiðlum, vangaveltur um hvort verði breytingar í yfirstjórn Morgunblaðsins nú í vikunni þá vegna þess að Davíð Oddsson, meðritstjóri þinn, verður 70. Er þar vísað í reglur Árvakurs sem kveða á um að þegar menn ná þeim aldri láti þeir af störfum, en svo mun til dæmis hafa verið með forvera ykkar í starfi, þá Styrmi og Matthías.
Því er einfaldlega spurt:
a) Mun Davíð hætta nú í vikunni?
b) Ef ekki, hvenær er gert ráð fyrir því að hann láti af störfum?
c) Verður einhver sérstakur viðbúnaður á Morgunblaðinu vegna þessa stórafmælis; afmælisgreinar og/eða önnur umfjöllun? Og er ég þar með í huga hvort það setji ykkur hugsanlega í þrönga stöðu ákvæði siðareglna um að ekki beri að fjalla um sig sjálfan?
Allra bestu kveðjur með von um skjót svör,
Jakob