Innlent

„Til okkar leitar fólk sem að hefur lent í svipuðu“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sóknarprestur í Grafarvogskirkju segir ekki síður mikilvægt að konur í prestastétt stígi fram í ljósi þess hlutverks sem þær gegni í starfi. Líkt og fjallað hefur verið um á Vísi stigu konur í prestastétt fram í dag undir formerkjum MeToo-hreyfingarinnar líkt og konur í öðrum stéttum hafa gert undanfarnar vikur og mánuði.

„Það er alla veganna mikilvægt, því að til okkar leitar fólk sem að hefur lent í svipuðu, að við séum ekki feimnar við að segja frá okkar sögum og sýna að við erum hluti af þessari ómenningu sem þrífst í samskiptum í samfélaginu,“ segir Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju og stjórnarkona í Félagi prestvígðra kvenna, í samtali við Stöð 2.

Að því er fram kemur í yfirlýsingunni eru gerendur ýmist yfirmenn, samstarfsfólk, sjálfboðaliðar eða aðilar sem nýta sér þjónustu kirkjunnar. Sögurnar skipta tugum og segja ýmist frá grófri kynferðislegri áreitni, kvenfyrirlitningu, valdaójafnvægi eða athugasemdum um útlit og klæðaburð.

Biskup upplifað margt á áratugaferli í kirkjunni

„Það kom okkur sjálfum á óvart þegar við lásum yfir allar sögurnar saman ýmislegt sem kom upp og margt sem hægt er að ræða og skoða en ekkert held ég sem að við konurnar í þessu samfélagi eigum ekki sammerkt,“ segir Jóhanna Gísladóttir, prestur í Langholtskirkju og formaður Félags prestvígðra kvenna.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, gaf ekki kost á viðtali vegna málsins en sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hún segir frásagnirnar ekki koma sér á óvart. Sjálf hafi hún starfað innan kirkjunnar í nær fjörutíu ár og á þeim tíma hafi hún bæði séð og upplifað ýmislegt. Kveðst hún taka heilshugar undir kröfu kvenna í stéttinni og hyggst leggja sig fram við að bæta starfsumhverfi og samskipti í kirkjusamfélaginu.

„Við finnum mikinn velvilja og erum sannfærðar um að allir þessir aðilar munu leggja sitt af mörkum til þess að breyta þessu en svo snýst þetta líka um hugarfarsbreytingu hjá öllum og þá er ekki síður bara sóknarnefndarfólk, starfsfólk, prestar og við öll hin,“ segir Guðrún.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×