Körfubolti

Finnur: Spiluðum hrikalega illa á köflum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR. Vísir/Anton
„Ánægður með að vera kominn í bikarúrslitin fjórða árið í röð,“ voru fyrstu viðbrögð Finns Freys Stefánssonar, þjálfara KR, eftir sigurinn á Breiðabliki í undanúrslitum Maltbikarsins í kvöld. „Það er eitthvað sem við erum stoltir af, en að sama skapi verkefni sem er ekki búið.“

KR fór með 90-71 sigur á 1. deildar liði Blika, en leikurinn var þó ekki eins auðveldur og stigaskorið gæti gefið til kynna, Blikar voru inni í leiknum allt fram í lokaleikhlutann.

„Blikarnir byrja vel, og mér fannst við á köflum spila hrikalega illa, bæði í vörn og sókn. Mér fannst ekki vera mikil einbeiting í okkar leik og við vorum að gera mikið af mistökum.“

„Ég vona innilega að þetta séu ekki fyrirheitin fyrir það sem verður á laugardaginn,“ sagði Finnur.

Hann játaði því að ef mótherjinn hefði verið sterkari í dag þá væri KR ekki endilega á leið í úrslitaleikinn.

„Við réðum ekkert við Jeremy hjá þeim, hann skoraði nánast að vild. Snorri átti gríðarlega góðan leik og tuskaði okkar menn þrátt fyrir að hann væri höfðinu minni. Ég held við verðum, og ætlum, að gera töluvert betur ef við ætlum að vinna bikarinn aftur.“

„Þetta er mikið afrek að vera kominn hingað einu sinni enn, sérstaklega þar sem það eru mörg góð lið í deildinni. Þetta er leikur sem er ólíkur úrslitakeppninni, þetta fræga dagsform ræður svo miklu, þú færð ekki annan leik til.“

„Við þurfum að vera klárir á laugardaginn og sýna töluvert betri leik en við gerðum í dag,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×