Rapparinn 50 Cent er sagður hafa grætt rúmlega sjö milljónir Bandaríkjadollara á rafmyntinni Bitcoin. Það jafngildir um 709 milljónum íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag.
Fjölmiðlar ytra hafa margir hverjir fjallað um þennan meinta gróða rapparans, sem heitir réttu nafni Curtis Jackson, en hann er sagður hafa þegið Bitcoin í greiðslu fyrir plötu sína Animal Ambition árið 2014.
Á þeim tíma var ein Bitcoin-eining metin á 662 dollara og þurfti því aðeins að borga brota brot af einingu fyrir plötuna.
50 Cent er sagður hafa þénað um 700 Bitcoin-einingar fyrir sölu á plötunni sem samsvaraði um 400 þúsund dollurum árið 2014.
Er sú upphæð sögð vera um 7,7 milljónir dollara í dag.
Það var TMZ sem greindi fyrst frá þessum Bitcoin-gróða rapparans en hann sjálfur birti sjáskot af fréttinni á Instagram-síðu sinni og sagði þetta ekki slæmt fyrir strák sem ólst upp í suðurhluta Queens í New York.
Lífið