Sport

Hvaða belti erum við eiginlega að berjast um?

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Tony Ferguson með beltið sitt.
Tony Ferguson með beltið sitt. vísir/getty
UFC-aðdáendur eru enn að klóra sér í hausnum eftir stórfurðuleg ummæli Dana White, forseta UFC, varðandi titilbardagann í léttvigtinni sem verður á UFC 223.

White sagði á blaðamannafundi á dögunum að Khabib Nurmagomedov og Tony Ferguson myndu berjast um beltið í þyngdarflokknum en á sama tíma vildi hann ekki segja að búið væri að taka beltið af Conor McGregor.

Þeir eiga sem sagt að berjast um beltið hans Conors sem er samt ekki búið að taka af honum. Það skilur enginn neitt og það pirrar Ferguson.

„Þetta fer alveg hrikalega í taugarnar á mér. Við vitum ekki hvort við erum að berjast um alvöru beltið eða ekki. Hvaða djöfulsins rugl er þetta?“ sagði Ferguson pirraður.

„Dana er að segja eitt við okkur og svo snýr hann sér við og segir öðrum að Conor sé enn meistarinn. Ég elska Dana en þetta er óþolandi rugl í honum. Er ég meistarinn eða ekki?“

Ferguson er með bráðabirgðarbeltið í þyngdarflokknum eftir að hafa unnið Kevin Lee. Conor vann beltið í flokknum þann 12. nóvember 2016 en hefur ekki barist síðan. Hann er ekki að fara að berjast fyrri hluta þessa árs en heldur samt enn beltinu.

Ferguson átti að berjast við Conor eftir að hafa unnið bráðabirgðabeltið en varð að taka annan bardaga þar sem Írinn er ekkert að drífa sig aftur í búrið.

„Það var búið að segja við mig að ég fengi bardaga gegn Conor en svo hefur alls konar vitleysa verið í gangi. Svona er þetta stundum,“ segir Ferguson.

UFC 223 fer fram þann 7. apríl í Brooklyn.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×