Erlent

Tveir nemendur látnir eftir skotárás í framhaldsskóla í Kentucky

Kjartan Kjartansson skrifar
Benton er í vestanverðu Kentucky-ríki í Bandaríkjunum.
Benton er í vestanverðu Kentucky-ríki í Bandaríkjunum. Google
Ríkisstjóri Kentucky í Bandaríkjunum segir að tveir fimmtán ára gamlir nemendur hafi látist í skotárás í framhaldsskóla í vestanverðu ríkinu í dag. Tólf aðrir særðust í árásinni. Árásarmaðurinn var handtekinn.

Árásin í Framhaldsskóla Marshall-sýslu í bænum Benton hófst skömmu eftir klukkan átta í morgun að staðartíma, að því er segir í frétt Reuters. Fjórtán nemendur urðu fyrir byssukúlum. Piltur og stúlka, sem voru bæði fimmtán ára gömul, létust af sárum sínum, að sögn lögreglu og Matt Bevin, ríkisstjóra Kentucky.

Árásarmaðurinn var bekkjarfélagi nemendanna sem voru skotnir. Hann var handtekinn mótþróalaust á vettvangi.

Skotárásir í skólum og opinberum stöðum hafa verið nær daglegt brauð í Bandaríkjunum undanfarin ár. Þúsundir Bandaríkjamanna falla fyrir skotvopnum á hverju ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×