Sport

Stipe Miocic með sögulegan sigur

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Miocic stjórnaði Ngannou vel í gólfinu.
Miocic stjórnaði Ngannou vel í gólfinu. Vísir/Getty
Stipe Miocic sigraði Francis Ngannou á UFC 220 í nótt. Bardaginn stóð yfir mun lengur en flestir bjuggust við og sigraði Miocic eftir dómaraákvörðun.

UFC 220 fór fram í Boston í nótt. Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Stipe Miocic og Francis Ngannou um þungavigtartitil UFC. Áskorandinn Ngannou var talinn sigurstranglegri af veðbönkum.

Stipe Miocic stóð af sér erfiðleika í fyrstu lotu og vann allar loturnar. Miocic tók Ngannou nokkrum sinnum niður í bardaganum og var Ngannou gjörsamlega uppgefinn í 3. lotu. Lítil ógn var af Ngannou í tveimur síðustu lotunum og sigldi Miocic þessu örugglega heim og vann allar fimm loturnar. Með sigrinum varð Miocic sá fyrsti til að verja þungavigtartitilinn oftar en tvisvar og var því um sögulegan sigur að ræða.

Daniel Cormier mætti Volkan Oezdemir í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Oezdemir byrjaði bardagann fjörlega en þegar leið á 1. lotuna tók Cormier áskorandann í gólfið. Cormier var nálægt því að klára bardagann með hengingu í 1. lotu en bjallan bjargaði Oezdemir.

Cormier gerði því það sama í 2. lotu – tók Oezdemir niður og komst í yfirburðarstöðu. Þar var Oezdemir bjargarlaus og lét Cormier mörg högg dynja á Oezdemir þar til dómarinn stöðvaði bardagann. Öruggur sigur hjá Cormier og vörðu því báðir meistararnir beltin sín í nótt.

Bardagakvöldið var nokkuð skemmtilegt en á vef MMA Frétta má sjá öll önnur úrslit kvöldsins.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×