Körfubolti

Ívar um fjarveru landsliðskvenna: „Þetta er mjög slæmt mál“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ívar Ásgrímsson þarf að glíma við öðruvísi vandamál en sumir landsliðsþjálfarar.
Ívar Ásgrímsson þarf að glíma við öðruvísi vandamál en sumir landsliðsþjálfarar. vísir/ernir
Eins og kom fram fyrr í dag verður íslenska kvennalandsliðið án fimm leikmanna sem gefa ekki kost á sér í næsta verkefni stelpnanna okkar. Þær eiga fyrir höndum útileiki á móti Svartfjallalandi og Bosníu í undankeppni EM 2019.

Í fréttatilkynningu frá KKÍ segir að Ragna Margrét Brynjarsdóttir, Stjörnunni, Hallveig Jónsdóttir, Val og Keflvíkingarnir Thelma Dís Ágústsdóttir, Birna Valgerðir Benónýsdóttir og Embla Kristínardóttir gefa ekki kost á sér í verkefnið.

„Það eru próf í háskólanum sem koma í veg fyrir að þær komist. Ragna Margrét er til dæmis í Mastersnámi og það er lokapróf í einu fagi á sama tíma þannig hún getur ekki farið í svona langt ferðalag,“ segir Ívar Ásgrímsson, landsliðsþjálfari, við Vísi.

Stelpurnar fara út 5. febrúar og koma ekki heim fyrr en 15. febrúar þannig um tíu daga ferð er að ræða sem virðist of mikið fyrir háskólanemana, sér í lagi þegar um að próf er að ræða.

„Þetta er ekki eins og við vildum hafa það. Þetta er tæpur hálfur mánuður sem við erum úti. Þetta er bara eins og að fara á stórmót. Fyrsta ferðalagið er sólarhringur og svo er leikur á laugardegi og miðvikudegi og ekki förum við heim á milli,“ segir Ívar.

„Við vildum líka fara út aðeins fyrr til að mæta þar leikmönnunum sem spila erlendis í staðinn fyrir að fá þær heim og ná nokkrum æfingum áður en við færum út.“

Þessi fjarvera lykilmanna er dæmi um ískaldan veruleika sumra íslenskra landsliða þar sem leikmenn verða, eða ákveða, að taka námið fram yfir sjálft íslenska landsliðið.

„Þetta er bara mjög slæmt mál og umhugsunarefnið. Við erum í undankeppni Evrópumótsins og KKÍ er búið að leggja mikinn pening og metnað í verkefnið. Ef leikmenn sjá sér svo ekki fært að taka þátt af heilum hug þarf að skoða hvað á að gera,“ segir Ívar Ásgrímsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×