Katrín er hugsjónakona og verk hennar endurspegla það. „Auðvitað geta áhorfendur túlkað verkin á sinn hátt, þannig á það að vera,“ segir hún. „Ég sá að verk eftir Leonardo da Vinci seldist í lok síðasta árs á 46 milljarða króna, sem er auðvitað klikkun. Verkið á að sýna bjargvætt heimsins, sem í augum Da Vincis er Jesú. Í mínum augum er það mannkynið sjálft því við þurfum öll að leggja okkar af mörkum til að leysa þau vandamál sem steðja að okkur. Ég setti son minn í stellingar þar sem hann er að blessa heiminn með annarri hendi og í hinni heldur hann á kúlu sem er jörðin.“

Synir Katrínar, þrír að tölu, koma fyrir í mörgum verkum hennar. Skyldu þeir hafa mikla þolinmæði til að sitja fyrir? „Ég tek helling af ljósmyndum af þeim en annar tvíburinn minn, sem er sextán ára, gat nú alveg setið kyrr í nokkurn tíma um daginn!“

Þess utan er hún með fjögur verk sem túlka lífsskeiðin fjögur, bernsku, ungdóm, fullorðinsár og elli. „Bara til að undirstrika að öll göngum við í gegnum það sama, ef við fáum að lifa, berum sömu tilfinningar og væntingar,“ segir Katrín. „Því þurfum við að jafna möguleikana milli fólks.“