Erlent

Kennir Rússarannsókn um mistök í máli Cruz

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Donald Trump forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gagnrýnt bandarísku alríkislögregluna, FBI, fyrir að hunsa ábendingar um Nikolas Cruz sem myrti 17 manns í framhaldsskóla í Flórída á miðvikudag.

Trump sagði á Twitter síðu sinni að hann væri hryggur að FBI hafi misst af vísbendingum um Cruz

„Þetta er ekki viðunandi. Þeir eyða of miklum tíma í að reyna að sanna leynimakk Rússa og Trump framboðsins. Það var ekkert leynimakk. Lítið aftur á aðalatriðin og gerið okkur öll stolt,“ skrifaði Trump.



FBI hefur viðurkennt að hafa fengið ábendingar um að Nikolas Cruz gæti verið líklegur til vandræða, ekki síst vegna samfélagsmiðlahegðunar hans.

Færslur hans á samfélagsmiðlum teikna upp mynd af ungum manni, fullum af hatri. Margar hverjar voru gegnumsýrðar af kynþáttahatri og átti hann það til að hreyta fúkyrðum í múslima og svart fólk. Í færslum sínum sagðist hann ætla að berjast gegn andfasistum og öllum þeim lögreglumönnum sem myndu standa í vegi hans.

Árásin í Flórída á miðvikudag var sú mannskæðasta síðan árið 2012 og hefur endurvakið umræðuna um strangari vopnalög vestra. Nemendur sem lifðu árásina af hafa krafist þess að skotvopnalöggjöfin verði hert og gagnrýna forsetann fyrir að þiggja fjárhagsstyrk frá Skotvopnasamtökum Bandaríkjanna (NRA) í kosningabaráttunni.

 

 

Nikolas Cruz var leiddur fyrir dómara á fimmtudag.Skjáskot
Á föstudag ákærði alríkisdómstóll í Bandaríkjunum þrettán rússneska ríkisborgara og þrjá rússneska lögaðila sem sakaðir eru um að hafa haft afskipti af kosningunum í Bandaríkjunum og framgang lýðræðis þar í landi. Trump hefur ítrekað neitað því að eiga í samskiptum við yfirvöld í Moskvu.

Í yfirlýsingunni er því haldið fram að Rússarnir hafi notast við falskar Facebook-færslur og auglýsingar til að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir í Bandaríkjunum á meðan kosningabaráttu stóð á milli Donald Trump, frambjóðanda Repúblikana, og Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrata, um embætti forseta Bandaríkjanna árið 2016.

Er því haldið fram að með rekstri þessa máls gegn Rússunum sé verið að reyna að endurvekja traust á bandarísk stjórnmál.

Á meðal þess sem er ákært er fyrir er samsæri, fjársvik og einkennisþjófnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×