Menning

Fjögur tilnefnd til Íslensku myndlistarverðlaunanna

Björg Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri KÍM.
Björg Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri KÍM.
Tilnefningar til Íslensku myndlistarverðlaunanna hafa nú verið kynntar. Samtals voru 32 listamenn tilnefndir sem myndlistarmaður ársins. Úr þeim hópi hafa fjórir listamenn komist á forvalslista dómnefndar. Þeir eru:

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir fyrir sýninguna Erindi í Hafnarborg, Egill Sæbjörnsson fyrir sýninguna Ùgh & Bõögâr Jewellery í i8 Gallery, Hulda Vilhjálmsdóttir fyrir sýninguna Valbrá í Kling og Bang og Sigurður Guðjónsson fyrir sýninguna Inniljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.

Að auki hlutu 15 myndlistarmenn tilnefningu til Hvatningarverðlauna ársins. Í dómnefnd sitja þau Margrét Kristín Sigurðardóttir, formaður, fyrir hönd Myndlistarráðs, Sigrún Hrólfsdóttir fyrir hönd Listaháskóla Íslands, Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir fyrir hönd Sambands íslenskra myndlistarmanna, Magnús Gestsson fyrir hönd Listfræðafélags Íslands og Margrét Elísabet Ólafsdóttir sem er fulltrúi safnstjóra íslenskra safna í dómnefndinni.



Verðlaunin verða veitt í Hafnarhúsi 22. febrúar.
Að verðlaununum standa Myndlistarráð og KÍM, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Björg Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri KÍM, sagði í samtali við Fréttablaðið að það væri löngu orðið tímabært að Íslensku myndlistaverðlaununum væri komið á koppinn.

„Ástæða þess að farið var af stað núna er sú að Myndlistarráð, sem stofnað var árið 2013, hefur það hlutverk að efla og kynna íslenska myndlist og þau töldu að Íslensku myndlistarverðlaunin væru tilvalin til þess að draga athygli að íslenskri myndlist, upphefja og koma betur á framfæri innanlands,“ bætti Björg við.

Verðlaun af þessu tagi hafa ekki verið veitt síðan Sjónlistarverðlaunin voru og hétu. Þau voru síðast veitt árið 2012 og þar á undan árið 2008. Sjónlistarverðlaunin voru á sínum tíma veitt í tveimur flokkum, fyrir myndlist og hönnun. Stofnað hefur verið til Hönnunarverðlauna Íslands síðan Sjónlistarverðlaunin lögðust af og því kominn tími á myndlistina, líkt og Björg segir.

Íslensku myndlistarverðlaunin, ásamt Hvatningarverðlaununum, verða veitt í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur 22. febrúar næstkomandi. Myndlistarmaður ársins hlýtur peningaverðlaun að upphæð ein milljón króna, en Hvatningarverðlaununum fylgir hálf milljón króna. Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mun afhenda verðlaunin og eru allir velkomnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×