Innlent

Áslaug Arna ætlar ekki í slaginn við Þórdísi

Þórdís Valsdóttir skrifar
Áslaugu Örnu líst vel á framboð Þórdísar Kolbrúnar í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
Áslaugu Örnu líst vel á framboð Þórdísar Kolbrúnar í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Eyþór
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og starfandi varaformaður ætlar ekki að gefa kost á sér sem varaformaður flokksins á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem fram fer í mars. Þetta sagði hún í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.

Áslaug Arna hefur gegnt stöðu varaformanns frá því Ólöf Nordal féll frá í febrúar á síðasta ári.

„Þegar ég tók við sem starfandi varaformaður fram að næsta landsfundi þá tók ég það nú fram að ég ætlaði ekki að gefa kost á mér sem varaformaður heldur hyggst gefa kost á mér aftur sem ritari Sjálfstæðisflokksins. Þetta hafa auðvitað verið nokkuð óvenjuleg ár þegar maður hefur verið ritari. Það hafa verið tvennar Alþingiskosningar og við misstum okkar öflugustu stjórnmálakonu þannig að mig langar mikið að halda áfram að sinna því starfi,“ segir Áslaug Arna.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunarráðherra tilkynnti í dag að hún hafi ákveðið að bjóða sig fram til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum.

Áslaug segir að henni lítist vel á framboð Þórdísar Kolbrúnar. „Það er alltaf gleðilegt þegar svona gott fólk er tilbúið að gefa kost á sér í trúnaðarstörf fyrir Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Áslaug Arna.

Áslaug Arna telur að Þórdís muni fá mótframboð.  „Það er ólíklegt þegar það er laus staða í forystu sjálfstæðisflokksins að ekki sé tekist á um hana. Ég myndi telja að það væri líklegra en ekki, en það er aldrei að vita,“ segir Áslaug Arna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×