Erlent

Trump leggur til að vopna kennara til að fyrirbyggja skotárásir

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump hlýddi á nemendur frá framhaldsskólanum þar sem sautján nemendur voru myrtir í síðustu viku.
Trump hlýddi á nemendur frá framhaldsskólanum þar sem sautján nemendur voru myrtir í síðustu viku. Vísir/AFP
Ef kennarar væru vopnaðir skotvopnum gætu þeir stöðvað skotárásir í skólum fljótt. Þetta var hugmynd sem Donald Trump Bandaríkjaforseti velti upp á fundi með nemendum sem lifðu af skotárás í framhaldsskóla á Flórída og foreldrum unglinga sem voru myrtir í Hvíta húsinu í dag.

„Ef þú værir með kennara sem væri laginn með skotvopn, þá gæti vel verið að það myndi stöðva árásir mjög snögglega,“ sagði Trump en viðurkenndi að slík hugmynd yrði umdeild, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Hvíta húsið bauð nemendum frá Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum í Parkland á Flórída til fundar þar í dag. Sautján manns voru skotnir til bana þegar fyrrverandi nemandi gekk berserksgang þar á miðvikudag í síðustu viku. Fundinum var lýst sem „áheyrnarfundi“ til að Trump gæti hlustað á það sem eftirlifendurnir hefðu fram að færa.

Vísaði Trump einnig til íþróttakennara sem lét lífið þegar hann reyndi að verja nemendur fyrir skothríðinni.

„Ef hann hefði verið með skotvopn hefði hann ekki þurft að flýja, hann hefði skotið og það hefði bundið enda á þetta,“ sagði forsetinn, að sögn Politico.

Lofaði að herða bakgrunnseftirlit

Nemendurnir og foreldarnir hvöttu forsetann eindregið til að koma í veg fyrir harmleikir af þessu tagi endurtaki sig í Bandaríkjunum.

„Ég skil ekki hvernig ég get farið inn í búð og keypt stríðstól, hríðskotabyssu,“ sagði Sam Zeif, átján ára nemandi við skólann sem lýsti grátandi skilaboðum sem hann sendi fjölskyldu sinni á meðan skotárásin var í gangi. 

Trump lofaði nemendunum að beita sér af hörku fyrir hertu bakgrunnseftirliti með byssukaupendum og í geðheilbrigðismálum.

„Þetta verður ekki bara tal eins og hefur gerst í fortíðinni,“ sagði Trump.

Óljóst er þó hvort að flokkssystkini hans í Repúblikanaflokknum séu á sama máli. Flokkurinn hefur barist ötullega gegn hertri löggjöf um skotvopn undanfarin ár. Repúblikanar á ríkisþingi Flórída komu í veg fyrir að frumvarp um bann við hríðskotarifflum yrði sett á dagskrá þingsins í gær. Þess í stað hefur menntamálanefnd öldungadeildar þingsins lagt til að vopnaðir lögreglumenn verði í öllum skólum í ríkinu.

AP-fréttastofan sagði frá því nú í kvöld að fulltrúar sýslumannsins í Broward-sýslu þar sem skotárásin var framin í síðustu viku muni hér eftir bera riffla á skólalóðum í sýslunni.

Punktar sem Trump hafði með sér á blaði á fundinum með nemendunum og foreldrunum hafa einnig vakið nokkra athygli. Þannig var minnispunktur forsetans númer fimm „Ég heyri hvað þú ert að segja“.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×