Körfubolti

Tryggvi lendir rétt fyrir leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Tryggvi mun ekki spila mikið á föstudaginn ef hann spilar yfir höfuð.
Tryggvi mun ekki spila mikið á föstudaginn ef hann spilar yfir höfuð. vísir/anton
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik spilar gegn Finnum í undankeppni HM á föstudaginn og stóri maðurinn, Tryggvi Snær Hlinason, kemur nánast hlaupandi í Höllina af flugvellinum.

Hann er að spila með liði sínu Valencia í Aþenu á fimmtudag og kemur svo heim á leikdegi eftir að hafa misst af öllum undirbúningi íslenska liðsins.

„Það er ekki sanngjarnt gagnvart liðinu og Tryggva að koma beint í leik eftir að hafa ekki náð einni einustu æfingu. Það getur vel verið að við notum hann samt eitthvað á föstudaginn en það er mikilvægt að fá hann inn fyrir leikinn á sunnudag gegn Tékkum sem er með mun hávaxnara lið,“ segir Craig Pedersen landsliðsþjálfari.

„Ég held að Tryggvi lendi um fjögurleytið á föstudag og verður líklega ekki kominn í Höllina fyrr en um sexleytið. Þá er innan við tveir tímar í leik. Þetta er mjög tæpt og ekki gott fyrir hann sem ungan leikmann. Að spila kvöldið áður í Grikklandi, ferðast allan daginn og koma á staðinn rétt fyrir landsleik.“

Íslands og Finnland spila klukkan 19.45 á föstudag og leikurinn gegn Tékkum er klukkan 16.00 á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×