Her ríkisstjórnar Bashars al-Assad, forseta Sýrlands, hélt áfram sókn sinni í Austur-Ghouta í gær með loftárásum og sókn á jörðu niðri. Reynir stjórnarherinn nú að kljúfa svæðið í tvennt. Stjórnarliðar hafa nú þegar tekið vel rúman þriðjung svæðisins en um 800 hafa fallið frá því Assad-liðar settu aukinn þunga í sókn sína í febrúar.
Í gær greindu ríkisfjölmiðlar frá því að loftárásir hefðu verið gerðar á bæinn Mesraba til þess að undirbúa innrás hermanna. Ef stjórnarliðar taka Mesraba mun það þýða að þeir hafi um helming Austur-Ghouta á sínu valdi. Samkvæmt eftirlitssamtökunum Syrian Observatory for Human Rights sendu stjórnarliðar 700 hermenn til viðbótar til Austur-Ghouta í gær í von um að styrkja sóknina.
Ef uppreisnarmenn tapa Austur-Ghouta verður það stærsti ósigur þeirra frá því stjórnarherinn tók Aleppo árið 2016 eftir álíka blóðug átök. Austur-Ghouta er síðasta stóra vígi uppreisnarinnar nærri höfuðborginni Damaskus og með því að tapa svæðinu fjarlægjast uppreisnarmenn Assad Sýrlandsforseta.
Rússar, helstu bandamenn Assad-stjórnarinnar, greindu frá því í gær að hluti uppreisnarmanna vilji þiggja boð þeirra um að rýma svæðið og afhenda stjórnarliðum. Hins vegar hafa talsmenn uppreisnarhreyfinganna á svæðinu sagt að það sé með öllu ósatt. Uppreisnarmenn ætli að verja Austur-Ghouta og að engar viðræður hafi átt sér stað. „Fylkingarnar í Austur-Ghouta og hermenn þeirra ætla að halda þessu landi. Við munum verja það,“ sagði Hamza Birqdar, einn talsmanna Jaish al-Islam, við Reuters í gær.
Þá greindu Rússar einnig frá því í gær að þeir hefðu aðstoðað þrettán almenna borgara við að flýja svæðið í gær. Var þeim hleypt upp í tóma bíla í bílalest hjálparsamtaka sem hafði fengið að fara inn á svæðið með nauðsynjar á mánudag. Um var að ræða fyrstu bílalestina sem kemur til Austur-Ghouta til að aðstoða almenna borgara frá því að átökin hófust í núverandi mynd. Sagði rússneski herinn jafnframt að hann hefði notað dróna til að fylgjast með því hvort lestinni tækist að komast á leiðarenda.
