Innlent

Þorsteinn býður sig fram til varaformanns Viðreisnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þorsteinn Víglundsson gegndi embætti félags-og jafnréttismálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Þorsteinn Víglundsson gegndi embætti félags-og jafnréttismálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Vísir/Ernir
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur ákveðið að gefa kost á sér til varaformanns Viðreisnar. Þorsteinn greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni en landsþing flokksins verður haldið um næstu helgi.

„Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá stofnun flokksins hefur Viðreisn sýnt í verki að við höfum kjark og dug til að ráðast í þær breytingar sem nauðsynlegar eru á íslensku samfélagi svo að lífskjör verði hér áfram í fremstu röð. Við viljum berjast fyrir frjálslyndu, umburðarlyndu og opnu samfélagi þar sem allir fá notið jöfnuðar og jafnra tækifæra,“ skrifar Þorsteinn enn fremur í færslunni.

„Það er mér sannarlega heiður að fá að starfa fyrir Viðreisn og ég vonast eftir að sjá ykkur sem flest á Landsþinginu um næstu helgi.“

Jóna Sólveig Elínardóttir, sem sat á þingi fyrir Viðreisn árið 2016-2017, lét af störfum sem varaformaður Viðreisnar í janúar á þessu ári.

Þá hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gegnt stöðu formanns Viðreisnar síðan Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður, sagði af sér í október síðastliðnum. Talið var líklegt að bæði Þorsteinn og Þorgerður Katrín myndu bjóða sig fram í embætti formanns á flokksþingi í mars.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×