Innlent

Þurfa ekki að afhenda Glitnisgögn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Jón Trausti Reynisson eru ritstjórar Stundarinnar.
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Jón Trausti Reynisson eru ritstjórar Stundarinnar. vísir/ernir
Landsréttur hefur staðfest ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur að Útgáfufélagi Stundarinnar og Reykjavik Media beri ekki að afhenda Glitni Holdco gögn úr gamla Glitni um viðskiptavini bankans sem fjölmiðlarnir hafa undir höndum.

Stundin greinir frá en úrskurðurinn hefur ekki verið birtur á vef Landsréttar. Glitnir HoldCo, sem er eignarhaldsfélag sem heldur utan um eignir úr þrotabúi Glitnis, kærði ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa frá kröfu félagsins um að Stundin og Reykjavik Media afhentu öll gögn úr Glitni sem það taldi að þessir fjölmiðlar hefðu undir höndum.

Í úrskurði Landsréttar segir að kröfur um afhendingu gagna með þessum hætti þurfi að vera þannig að skýrt sé hvað beri að afhenda. Segir í úrskurðinum að ekkert liggi fyrir að þau gögn sem Glitnir HoldCo fari fram á að fá afhent séu sömu gögn og fjölmiðlarnir hafa undir höndum og hafa unnið fréttir úr.

Fjölmiðlarnir höfðu meðal annars fjallað um viðskipti Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti í október lögbann á fréttaflutning upp úr gögnum úr Glitni. Fyrr á þessu ári komst Héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að lögbannið hafi verið ólögmætt. Þeim dómi hefur verið áfrýjað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×