Menning

Í staðinn fyrir kalífann

Stefán Pálsson skrifar
Fúlmennið Fláráður stórvesír reyndist senuþjófur. Var það afar óvenjulegt í fransk/belgísku myndasöguhefðinni að kenna bækur við andhetju og að skúrkurinn væri í raun í aðalhlutverki.
Fúlmennið Fláráður stórvesír reyndist senuþjófur. Var það afar óvenjulegt í fransk/belgísku myndasöguhefðinni að kenna bækur við andhetju og að skúrkurinn væri í raun í aðalhlutverki.
Nicolas Sarkozy hefur átt betri daga. Frakklandsforsetinn fyrrverandi var á dögunum handtekinn og færður til yfirheyrslu. Fáheyrt er að fyrrverandi forsetar fái slíka meðhöndlun hjá frönsku lögreglunni, en tilefnið er rökstuddur grunur um að Sarkozy hafi tekið á móti ólöglegum framlögum í kosningasjóði sína fyrir forsetakosningarnar 2007, meðal annars frá stjórnvöldum í Líbíu.

Það hafa skipst á skin og skúrir á stjórnmálaferli Sarkozy. Hann komst ungur til metorða, fyrst sem borgarstjóri í heimabæ sínum og síðar sem ráðherra. Fyrir forsetakosningarnar 1995 veðjaði hann á rangan hest og studdi forsætisráðherrann Édouard Balladur á móti sínum gamla læriföður Jacques Chirac. Skoðanakannanir sýndu Balladur með mikið forskot og ákvað Sarkozy að stökkva á vagninn. Chirac náði hins vegar að snúa taflinu sér í vil, vann kosningarnar og Sarkozy féll í ónáð.

Árið 1999 var Sarkozy gerður að leiðtoga flokks Gaullista, RPR, eftir að forveri hans hrökklaðist úr embætti. Sú valdaseta varð skammvinn. Fáeinum mánuðum síðar voru Evrópuþingskosningar í Frakklandi, þar sem RPR beið afhroð og missti helming fylgis síns. Það var meira en flokksmenn þoldu og Sarkozy þurfti að stíga til hliðar.

Fyrir þessa snautlegu formannstíð sína hlaut Sarkozy verðlaun – þótt ekki teljist sú viðurkenning eftirsóknarverð. Hann hlaut nefnilega Fláráðs-verðlaunin eða Prix Iznogoud. Það eru verðlaun sem veitt voru árlega frá 1992 og eitthvað inn á 21. öldina. Um er að ræða háðungarverðlaun fyrir þá sem reitt hafa hátt til höggs en mistekist hrapallega. Langflestir verðlaunahafar eru stjórnmálamenn sem beðið hafa lægri hlut í kosningum eða neyðst til að segja af sér. Sum árin hafa þau þó verið veitt í fleiri flokkum, svo sem á sviði íþrótta og viðskipta. Árið 2003 var meira að segja bætt við alþjóðlegum flokki, þar sem George W. Bush varð fyrsti og eini útlendingurinn til að hljóta verðlaunin, fyrir Íraksstríðið sama ár.

Prix Iznogoud draga nafn sitt af myndasögupersónu þeirri sem á íslensku nefnist Fláráður stórvesír. Tengingin er augljós. Stórvesírinn Fláráður á þann draum heitastan að ryðja kalífanum Harúni milda úr sessi og gerast sjálfur kalífi í Bagdad í óskilgreindri fortíð. Í hverri sögu upphugsar Fláráður valdaránsáætlun, sem einatt misheppnast. Upphrópunin: „Ég vil verða kalífi í staðinn fyrir kalífann,“ hefur því öðlast þegnrétt í frönsku nútímamáli þegar gantast er með ofmetnað og valdagræðgi fólks.

Íslendingar fengu sinn skerf af Fláráði á árunum 1978-80 þegar Iðunn gaf út fjórar Fláráðs-bækur í frábærri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Enn er þó talsvert óútgefið, því á frummálinu hafa komið út 30 bækur. Af þeim eru 27 úr penna teiknarans Jean Tabary, en þrjár þær nýjustu eru teiknaðar af börnum listamannsins sem vilja halda lífi í mjólkurkúnni. Flestum ber þó saman um að fyrstu fjórtán bækurnar í ritröðinni beri af. Þær voru nefnilega samvinnuverkefni Tabary og höfundarins Goscinny, eins mesta snillings sem myndasöguheimurinn hefur alið.

Frakki á faraldsfæti

Réne Goscinny fæddist í París árið 1926, sonur pólskra gyðinga sem flust höfðu til Frakklands eftir fyrri heimsstyrjöldina. Hann var ekki nema tveggja ára gamall þegar fjölskyldan tók sig upp og flutti til Argentínu, þar sem faðirinn fékk vinnu sem efnaverkfræðingur. Þar ólst René litli upp sem hluti af franska samfélaginu í Buen­os Aires, talaði frönsku, drakk í sig franska sögu og menningu og dundaði sér við að teikna. Teiknikunnáttan skilaði honum starfi á auglýsingastofu.

Eftir skyndilegt fráfall föðurins fluttu René og móðir hans til Bandaríkjanna þar sem hann fékk vinnu við þýðingar. Til að losna við að vera kvaddur í bandaríska herinn hélt Goscinny heim til Frakklands og gegndi þar herþjónustu árið 1946. Yfirmennirnir í hernum komust á snoðir um að hann væri slyngur teiknari og fólu honum að sinna ýmsum slíkum verkefnum fyrir herinn. Meðan á dvölinni í Frakklandi stóð myndskreytti hann jafnframt sína fyrstu bók sem kom út á árinu 1947. Fátt bendir þó til þess að Goscinny hafi á þessum tíma litið á teikningu eða myndasögugerð sem framtíðarstarfsvettvang.

Goscinny sneri aftur til New York eftir að hafa afplánað herþjónustu, en hafði ekki að miklu að hverfa. Í blankheitum sínum og atvinnuleysi komst hann í kynni við nokkra bandaríska teiknara, sem síðar áttu eftir að verða frægir fyrir störf sín hjá skopblaðinu MAD Magazine. Í gegnum þann kunningsskap kynntist hann svo ungum belgískum teiknurum sem kölluðu sig Jijé og Morris.

Þeir Jijé og Morris höfðu haldið til Bandaríkjanna ásamt Franquin félaga sínum með tvær hendur tómar í veikri von um að fá vinnu hjá Walt Disney-fyrirtækinu og til að komast á kúrekaslóðir í villta vestrinu. Enga fundu þeir kúrekana og vinnuna fengu þeir ekki, en hið vanhugsaða ferðalag átti þó eftir að valda straumhvörfum í þróun evrópsku myndasögunnar.

Eflaust áttu kynnin af belgísku teiknurunum sinn þátt í því að Goscinny féllst nokkrum misserum síðar á að flytja til Parísar til að taka við starfi útibússtjóra alþjóðlegrar fréttastofu. Fréttamennskuferillinn reyndist stuttur, því fljótlega var Goscinny kominn á kaf í að semja sögur og skrifa efni fyrir myndasögublöð, en mikil gróska var í slíkri útgáfu á franska málsvæðinu: Frakklandi og Belgíu.

Það urðu fagnaðarfundir með þeim Goscinny og Morris þegar til Evrópu var komið. Þegar árið 1946 hafði Morris, þá kornungur, skapað myndasöguhetjuna Lukku-Láka, hugprúðan kúreka með nánast yfirnáttúrulega skotfimi. Hafði kúrekadellan sem fyrr sagði ráðið miklu um Ameríkuför þeirra vinanna.

Lukku-Láki naut vinsælda meðal ungra frönskumælandi lesenda, en sögurnar voru grunnar og gengu einkum út á hasar, ærsl og fimmaurabrandara. Styrkleikar Morris lágu miklu fremur í að teikna en að semja sögur, líkt og hann gerði sér fullvel grein fyrir.

Það var því mikið heillaspor þegar Goscinny og Morris hófu samstarf árið 1955. Morris teiknaði en Goscinny samdi handritin. Sögurnar urðu betri og heilsteyptari, auk þess sem nýi höfundurinn var lunkinn í að prjóna sögulega atburði inn í fléttuna og skapa góðar aukapersónur. Almennt er litið svo á að Lukku-Lákabækurnar sem félagarnir unnu í sameiningu beri af í bókaflokknum.

Sama ár hóf Goscinny að semja fyrir Franquin, sem kunnastur er sem höfundur Svals og Vals. Saman gerðu þeir vinsælar sögur um kærustuparið Modeste og Pompon, sem þó hafa aldrei komið út á íslensku.



Valdagírugt afstyrmi

Árið 1958 kynntist Goscinny teiknaranum Albert Uderzo og saman sköpuðu þeir sögur um hugdjarfa indíánann Oumpah-pah, sem gerðust í Norður-Ameríku á átjándu öld. Eins og það væri ekki nóg, skópu þeir annan sagnaheim – að þessu sinni í Evrópu á tímum Rómaveldis. Sögurnar um Ástrík gallvaska urðu heimsfrægar og munu halda nafni þeirra Uderzo og Goscinny á lofti um ókomna tíð.

Afköst Goscinny á þessum árum voru með hreinum ólíkindum. Auk þeirra sagnaflokka sem þegar hafa verið nefndir, samdi hann handritin að nokkrum minna þekktum myndasögum. Þá hóf hann að rita vinsælar barnabækur um „Le Petit Nicolas“ eða „Lása litla“ eins og þær nefndust í íslenskri útgáfu. Eru þá ótalin ritstjórnarstörf hans við hin ýmsu myndasögublöð og tímarit ætluð börnum og ungmennum. Vinnuharkan tók sinn toll og árið 1977 fékk Goscinny óvænt hjartaáfall og dó aðeins 51 árs að aldri.

Unnendur Lukku-Láka og Ástríks syrgðu hann mjög, enda má segja að sagnaflokkarnir hafi aldrei borið sitt barr eftir fráfall meistarans. Og það sama má segja um Fláráðsbækurnar, sem heita á að þessi pistill fjalli um.

Goscinny naut þess að skjóta sagnfræðilegum vísunum inn í myndasögur, líkt og sannast hafði í fyrri sagnaflokkum hans. Það var því rökrétt að hann tæki höndum saman við franska teiknarann Jean Tabary um að skapa sagnaheim í anda ævintýranna í 1001 nótt, með fljúgandi teppum, öndum í lömpum, kvennabúrum, ræningjaflokkum og öðrum sagnaminnum Miðausturlanda.

Upphaflega voru sögurnar kenndar við hinn hrekklausa kalífa Harún hinn milda. Fljótlega kom þó í ljós að fúlmennið Fláráður reyndist slíkur senuþjófur að nafn Harúns hvarf af forsíðunni. Var það afar óvenjulegt í fransk/belgísku myndasöguhefðinni að kenna bækur við andhetju og að skúrkurinn væri í raun í aðalhlutverki.

Sögurnar höfðu talsverðan pólitískan undirtón, enda Tabary gallharður sósíalisti og virkur félagi í einum af smáflokkum kommúnista í Frakklandi. Vísanir í frönsk stjórnmál og ekki síður pólitíska atburði í Mið­austur­löndum er víða að finna í sögunum, þótt margt af því sé óskiljanlegt í dag án útskýringa. Undirliggjandi er þó ætíð gagnrýni á valdabrölt og valdagræðgi. Og hætt er við að þeir Tabary og Goscinny hefðu skemmt sér dável yfir tilhugsuninni um Sark­ozy í gæsluvarðhaldi ef þeim hefði enst aldur til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.