Íslenski boltinn

Valur er meistari meistaranna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Valsmenn fögnuðu sigri á Hlíðarenda
Valsmenn fögnuðu sigri á Hlíðarenda vísir/sigurjón
Valur er meistari meistaranna eftir sigur á ÍBV í Meistarakeppni KSÍ. Þetta er í 11. skipti sem Valur vinnur þessa keppni og í þriðja árið í röð.

Leikurinn byrjaði nokkuð rólega og var lítið að frétta fyrstu 10-15 mínúturnar, Sigurður Egill Lárusson fékk eitt hálffæri en fleira markvert gerðist ekki.

Valsmenn voru ívið sterkari frá upphafi og skoruðu fyrsta markið á 29. mínútu. Einar Karl Ingvarsson átti þá frábæra sendingu inn á Patrick Pedersen sem kláraði færið eins og framherja er lagið.

Eyjamenn vöknuðu aðeins til lífsins eftir markið en það voru Valsarar sem áttu næsta mark, Bjarni Ólafur Eiríksson skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu. Einkar einfalt mark sem Kristján Guðmundsson hefur ekki verið sáttur með að fá á sig.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks minnkaði Kaj Leo í Bartalsstovu hins vegar muninn fyrir ÍBV. Shabab Zahedi vann boltann fyrir Eyjamenn og kom honum á Færeyinginn sem kláraði með þrumuskoti upp við stöngina. Staðan 2-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri, alveg einstaklega rólega. Valsmenn voru meira með boltann en gerðu lítið við hann, náðu ekki að skapa sér nein afgerandi færi.

Þegar leið á hálfleikinn fór meiri hiti að færast í leikinn en ekki náðu liðin að nýta sér það. Eyjamenn gerðu sig tvisar mjög líklega til þess að jafna leikinn undir lok leiksins þegar Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Sindri Snær Magnússon voru hársbreidd frá því að skora.

Jöfnunarmarkið kom hins vegar ekki, bikarmeistarar ÍBV lutu í lægri hlut gegn Íslandsmeisturum Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×