Herdómstóll í Búrma hefur dæmt sjö þarlenda hermenn fyrir aðild að morðum á tíu róhingjamúslimum í fyrra. Mennirnir voru dæmdir í tíu ára í fangelsi og erfiðsvinnu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Stjórnarher Búrma hefur verið sakaður um þjóðernishreinsanir í Rakhine-héraði. Hundruð þúsunda róhingja flúðu yfir landamærin til Bangladess í fyrra undan ofsóknum hersins. Herinn viðurkenndi hins vegar ekki fyrr en á þessu ári að hermenn hefðu átt þátt í morðum á róhingjum.
Tveir fréttamenn Reuters sem rannsökuðu morðin sem hermennirnir hafa nú verið dæmdir fyrir voru handteknir á sínum tíma. Þeir sitja enn í fangelsi. Dómstóll hafnaði að vísa máli þeirra frá í gær.
