Landsmenn hafa tekið átakinu gríðarlega vel frá upphafi og verkefnið skapað alla jafna góða stemningu á vinnustöðum landsins. Meginmarkmið Hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Þátttakendur eru hvattir til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta annan virkan ferðamáta til og frá vinnu. Keppt er um fjölda þátttökudaga en lið geta jafnframt skráð sig í kílómetrakeppnina þar sem keppt er um heildarfjölda kílómetra.
Hjólað í vinnuna var sett í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í morgun. Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, Alma Dagbjört Möller, landlæknir, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri að ógleymdum Frímanni Gunnarssyni, þáttastjórnanda með meiru fluttu stutt ávörp á meðan að gestir gæddu sér á léttum og ljúffengum veitingum. Að því loknu hjóluðu gestir og þátttakendur átakið formlega af stað.
Allar upplýsingar um Hjólað í vinnuna er að finna á hjoladivinnuna.is.
Hér fyrir neðan má sjá myndband þar sem starfsmenn Vínbúðarinnar lýsa hjólaátaki síns vinnustaðar.