Sport

Erfitt verkefni framundan hjá Demian Maia í kvöld

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Maia og Usman í vigtuninni í gær.
Maia og Usman í vigtuninni í gær. Vísir/Getty
Demian Maia mætir Kamaru Usman í kvöld í aðalbardaga kvöldsins á UFC kvöldi í Síle. Hinn fertugi Maia á erfitt verkefni í vændum og reikna fáir með sigri hjá honum.

Þetta verður í fyrsta sinn sem UFC heldur bardagakvöld í Suður-Ameríku utan Brasilíu en upphaflega átti Argentínumaðurinn Santiago Ponzinibbio að vera í aðalbardaga kvöldsins. Þegar augnpotarinn umdeildi meiddist á þumalfingri kom Brasilíumaðurinn Demian Maia í hans stað með fjögurra vikna fyrirvara.

Demian Maia hefur tapað tveimur bardögum í röð og telja veðbankar að þriðja tapið í röð komi að öllum líkindum í kvöld. Síðustu tvö töp komu gegn þeim Tyron Woodley og Colby Covington en báðir eiga þeir það sameiginlegt að vera sterkir glímumenn úr ólympískri glímu.

Kamaru Usman er einnig fær glímumaður með bakgrunn í ólympískri glímu. Usman hefur aldrei verið tekinn niður í UFC og hefur enginn einu sinni reynt það! Maia verður að ná bardaganum niður til að eiga möguleika á sigri.

Demian Maia er 19-2 á ferli sínum í UFC þegar hann nær að minnsta kosti einni fellu. Stærsti möguleiki hans verður í upphafi bardagans og ef hann nær fellunni snemma á hann fínan möguleika á sigri.

Usman mun reyna hvað hann getur til að halda bardaganum standandi og klára með rothöggi. Þó Usman reyni yfirleitt að taka sína andstæðinga niður veit hann að það er hættulegur leikur gegn Maia. Usman er hættulegri en Maia í standandi viðureign og þar mun hann vilja halda bardaganum.

UFC bardagakvöldið í kvöld verður sýnt á Stöð 2 Sport í nótt og hefst útsending kl. 2.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×