Íslenski boltinn

Ákall eftir fleiri Garðbæingum á völlinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þriðja umferð Pepsi deildar kvenna kláraðist í gærkvöld með fjórum leikjum. Áhorfendatölur á leikjum í deildinni fara hækkandi miðað við síðustu ár.

„Mér sýnist við vera að fá núna að meðaltali svona 280 manns á leik. Auðvitað eru toppar í því og lægðir en það er alveg frábært miðað við hvernig deildin var fyrir nokkrum árum,“ sagði Daði Rafnsson, einn sérfræðingur Pepsimarka kvenna.

„Það væri gaman að sjá lið eins og Stjörnuna og Val fá fleiri á sína leiki. Ég held að þá væri auðvelt að rífa upp enn fleiri á völlinn og þau lið eiga það klárlega skilið að fleiri séu að mæta.“

Um fjögur hundruð manns voru í Kórnum þar sem nýliðar HK/Víkings tóku á móti Breiðabliki. Færri hafa verið á leikjum Stjörnunnar og Vals í fyrstu leikjum tímabilsins.

„Valsarar eiga yfirleitt góða yngri flokka og stemmingu í kringum liðin í yngri flokkunum en það virðist ekki skila sér á völlinn. Ég vil kalla eftir því að Stjörnustelpur fái fleiri Garðbæinga á sína leiki, það hefur verið of döpur mæting miðað við hvað liðið hefur verið að sýna undanfarin ár,“ sagði Daði Rafnsson.

Pepsimörk kvenna eru á dagskrá á Stöð 2 Sport í kvöld klukkan 21:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×